Húsnæðisáætlun Árborgar – máttlaus framtíðarsýn fyrir ströndina

Nýverið var tekin fyrir húsnæðisáætlun sveitarfélagsins Árborgar, hvar uppbygging meirihlutans er lögð fram.

Húsnæðisáætlun er gerð í samvinnu við HMS þar sem áform til uppbyggingar sveitarfélaga eru lögð fram og er horft til tímabilsins 2025 – 2034. Undirritaður sá sig knúinn til að sitja hjá við afgreiðslu húsnæðisáætlunar vegna þess að í byggingaráformum meirihluta sjálfstæðismanna er engin áhersla lögð á að standa að uppbygginu á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Rök málflutnings undirritaðs voru þau að á komandi árum leggur meirihlutinn fram áætlun um uppbyggingu á Eyrarbakka (55 lóðir), Stokkseyri (42 lóðir), Tjarnabyggð (130 lóðir) og Selfoss (5.328 lóðir).

Við lestur húsnæðisáætlunar og á framtíðarsýn sjálfstæðismanna á uppbyggingu innan sveitarfélagsins kemur glögglega í ljós alvarleg nærsýni meirihlutans. Það sem stendur nærri ráðhúsinu virðist vera mikið áhugasvæði. Tjarnabyggðin virðist vera við jaðar framtíðarsýnar, því áformin um uppbyggingu þar er meiri en samanlögð framtíðaruppbygging á Eyrarbakka og Stokkseyri, sem fellur nánast alfarið út úr sjónsviði þeirra.

Landeign og lóðaumráð Sveitarfélagsins Árborgar er verulegt niðri á strönd. Landeign og umráðaréttur á Selfossi og Tjarnabyggð er að mestu í einkaeigu. Myndi undirritaður því ætla að áhersla og hagsmunir sveitarfélagsins væru fólgnir í því að koma eign sinni í landformi í tekjuaflandi ástand.

Vitað er að einkaaðilar eru mjög áhugasamir um að koma landeignum sínum í fé og eru stöðugt að reyna að hámarka arðsemina af eignum sínum. Þar liggur kannski hundurinn grafinn. Meirihluti sjálfstæðismanna er svo upptekinn við að hámarka arðsemi einkaaðila á svæðinu að þau gleyma að hámarka arðsemi af eignum íbúa sveitarfélagsins.

Arnar Freyr Ólafsson
Bæjarfulltrúi Framsóknar í Árborg

Fyrri greinLokaviðburðir Janoir í vikunni
Næsta greinSjálfstæðismenn í Árborg skora á Guðrúnu