Hvar ætlar þú að starfa?

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Mikið hefur verið rætt um þá miklu uppbyggingu sem er í Árborg og þann fjölda sem leitar í sveitarfélagið og býr fjölskyldu sinni heimili. Það er frábært og því ber að fagna; því ég held að við getum öll verið sammála um það að hér er gott að búa og fasteignaverðið viðráðanlegt, bæði fyrir þau sem eru að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaðinn og þau sem eru að stækka við sig.

Margt fólk sækir þó ekki atvinnu í sveitarfélaginu og um 20% þess leggur leið sína yfir heiði til að sækja störf sem hæfa sinni menntun. Það er því ljóst að tækifæri eru til þess að bæta úr og horfast í augu við að það er betra að fólk finni sér framtíðarstörf í heimabyggð. Við viljum að fólk sjái það sem raunhæfan möguleika að búa á landsbyggðinni og afla sér farborða þar sem það býr.

Það er nákvæmlega það – bjóða fólki uppá atvinnu við sitt hæfi, menntun og reynslu og bjóða upp á möguleikann á því að starfa nær sínu heimili, jafnvel í fjarvinnu. Þar koma meðal annars störf án staðsetningar inn sem mikilvægur hlekkur í þá umræðu og að víkka sjóndeildarhring stjórnvalda á þeim kosti að þekking dreifist víðar um landið og fólk fái tækifæri til þess að búa og starfa í sinni heimabyggð. Þá tel ég að störf án staðsetningar og fjarvinnslustöðvar myndu skipta sköpum fyrir háskólamenntað fólk. Jafnframt myndi það hafa góð áhrif á byggðarþróun ásamt því að hafa jákvæð áhrif á samgöngur og þróun þeirra til framtíðar. Þá þarf að setja á fót skattafslátt vegna kostnaðar við ferðir til vinnu fyrir fólk utan höfuðborgarsvæðisins en það er hluti af aðgerðaráætlun stefnumótandi byggðaráætlunar fyrir árin 2018 til 2024.

Störf án staðsetningar hafa mörg jákvæð áhrif m.a. á fjölskylduna, fjárhaginn og umhverfið svo eitthvað sé nefnt. Þetta helst allt í hendur og undir eru hagsmunir þeirra fjölskyldna sem kjósa að færa heimili sitt út úr höfuðborginni. Gerum búsetu á landsbyggðinni raunhæfan kost fyrir alla sem það kjósa og tryggjum að atvinnuþróun sé í takt við þann fjölda sem það kýs. Klárum dæmið!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir,
lögfræðingur og frambjóðandi í 3. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

 

Fyrri greinTap í hörkuleik í Mosó
Næsta greinBóndi brotnaði á handlegg