Skilvirkni í viðbrögðum stjórnvalda eftir náttúruhamfarir er grundvöllur að markvissri enduruppbyggingu þess. Almenningur er vel upplýstur í gegnum fjölmiðla um fyrstu viðbrögð og hugur fólks er hjá þolendum hamfaranna. En það sem minna sést, nema það snerti okkur beint, er sú langtíma þjónusta sem veitt er, líkt og fjárhagsaðstoð, húsnæðisaðstoð og endurvakning atvinnulífs.
Samkvæmt skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna er endurreisn ferli ákvarðana og aðgerða sem miðar að því að endurheimta eða bæta lífsskilyrði samfélags sem lent hefur í áfalli. Fullmótuð endurreisnaráætlun skiptir sköpum fyrir samfélagið í heild, einkum þeirra sem fyrir áfallinu verða. Með fullmótaðri endurreisnaráætlun eftir náttúruhamfarir er hægt að endurreisa innviði samfélagsins á sem skemmstum tíma. Reynslan hefur þó einnig sýnt að það má heldur ekki fara of geyst. Það verður að fara nógu hægt til að tryggja að raddir íbúa heyrast og að vel sé ígrundað hvort byggja eigi samfélagið upp aftur í sama horf eða hvort gera eigi breytingar í kjölfar hamfaranna og endurbyggja innviði og mannvirki með hliðsjón af nýjum raunveruleika. Gott endurreisnarferli er því vandasamt verk.
Sveitarfélög leika lykilhlutverk í að leiða endurreisnarstarfið í samstarfi við önnur stjórnvöld. En ef að áætlun er ekki til eða fólk sem leiðir endurreisnarferli hefur ekki fengið til þess fræðslu og þjálfun getur endurreisnin orðið ómarkviss, óskipulögð og jafnvel skapað þær aðstæður að neyðarástand sé viðhaldið lengur en þörf er á. Sem dæmi má nefna, að í skýrslunni Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum kemur meðal annars fram að slíkar aðstæður hafi skapast eftir snjóflóðin í Súðavík, sem rakið var til þess að ekkert skipulag hafi verið til staðar við endurreisnina.
Við endurreisum samfélag með öflugu fólki sem hefur fengið til þess fræðslu og þekkingu. Við verðum að tryggja sveitarfélögum betri verkfæri og því þarf að skilgreina betur hlutverk sveitarfélaga við endurreisn og að tryggt sé að viðunandi þjálfun og fræðsla eigi sér stað til starfsmanna og sveitarstjórnarmanna. Með því að fjárfesta í fólki með þessum hætti erum við betur í stakk búin til þess að takast á við áföll og endurreisn eftir náttúruhamfarir og þannig getum við staðið vörð um vöxt og velferð samfélagsins, alveg sama á hvað dynur.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Höfundur er lögfræðingur og frambjóðandi í 3. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.