Veljum aukin lífsgæði fyrir aldraða.
Veljum bætt kjör fyrir fjölskyldur.
Veljum fjölbreytt atvinnulíf sem byggist upp í sátt við íbúa og umhverfi.
Veljum stjórnsýslu sem einkennist af gagnsæi, íbúalýðræði og samvinnu.
Laugardaginn 14. maí getur þú ráðið hvert við stefnum.
Það gengur vel í Sveitarfélaginu Ölfusi. Hjá okkur er kraftmikil uppbygging, öflugt íþróttastarf og skemmtileg menning. Fyrir því eru margar ástæður: framsækið markaðsátak 2016 með yfirskriftinni Hamingjan er hér, uppbygging hafnarinnar, velgengni körfuboltans og annarra íþróttafélaga í Ölfusi og tvö vel heppnuð unglingalandsmót UMFÍ sem vöktu mikla athygli. Einstakt tónlistarstarf Tóna og trix, tónlistarhóps eldri borgara sem gáfu m.a. út plötu í samstarfi við fjölmargt landsþekkt tónlistarfólk, hefur einnig vakið athygli sem og reglulegir og metnaðarfullir tónleikar Lúðrasveitar Þorlákshafnar. Listinn er lengri: Jónas Sig og tryggð hans við sína gömlu heimabyggð sem fram hefur komið í fjölmörgum viðtölum og var yrkisefni á plötunni Þar sem himin ber við haf og hið margrómaða kaffihús Hendur í höfn vöktu athygli. Sundlaugin í Þorlákshöfn og skammdegishátíðin Þollóween, sem er einstaklingsframtak nokkurra kvenna, hafa einnig vakið athygli að ógleymdum golfvellinum sem er meðal þeirra bestu á landinu, ströndin, mótorkrossbrautin, metnaðarfull ferðaþjónustufyrirtæki og svo mætti lengi telja. Velgengni Sveitarfélagsins Ölfuss er ekki að þakka einum manni heldur samtakamætti fólksins sem hér býr og starfar.
Bætum kjör fjölskyldna
Við frambjóðendur á Íbúalistanum eigum ýmislegt sameiginlegt þótt ólík séum. Við trúum því að allir eigi að búa við öryggi og hafa jöfn tækifæri til að rækta sig og sína styrkleika. Við vitum hversu miklu máli það skiptir fyrir fjölskyldur að koma börnum sínum að á leikskóla þegar fæðingarorlofi lýkur og ætlum þess vegna að eyrnamerkja eina deild á nýjum leikskóla ungum börnum, frá 12 mánaða aldri. Við ætlum, í samvinnu við önnur sveitarfélög, að þrýsta á að ríkið geri fyrsta skólastigið gjaldfrjálst, við teljum að það sé réttlætismál. Íbúalistinn ætlar að bæta kjör fjölskyldna.
Kjarkur, metnaður og sjálfsvirðing
Við erum meðvituð um þá ógn sem stendur af loftslagsbreytingum og vitum líka að ekkert sveitarfélag getur staðið aðgerðarlaust hjá og erum þess vegna með metnaðarfull markmið á sviði umhverfismála. Við erum sannfærð um að Sveitarfélagið Ölfus geti haft kjark, metnað og sjálfsvirðingu til þess að velja þau fyrirtæki sem hingað vilja koma með tilliti til lífsgæða íbúa, umhverfis og samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækjanna og ætlum þannig að leggja grunn að fjölbreyttu atvinnulífi.
Aukum lífsgæði aldraðra
Það verður forgangsmál hjá okkur, ef við fáum brautargengi í kosningunum, að auka lífsgæði aldraðra og það ætlum við m.a. að gera með því að setja á sólarhringsvakt fyrir íbúa á Níunni , sem getur einnig nýst fólki í heimahúsum, við ætlum að ráða vel menntaða og reynslumikla forstöðumanneskju á Níuna, auka aðkomu sveitarfélagsins að félagsstarfi og stórefla heimaþjónustu og heimahjúkrun í samstarfi við rétta aðila. Það er mikið hagsmunamál fyrir aldraða og aðstandendur þeirra að fá hjúkrunarrými í Þorlákshöfn. Við viljum ekki bíða eftir því að sameiginlegur draumur Þorlákshafnarbúa um hjúkrunarheimili rætist heldur leita leiða til að útfæra við allra fyrsta tækifæri 4 hjúkrunarrými á Níunni í samstarfi við rétta aðila. Þetta mál þolir ekki bið og þarf að leysa strax. Við treystum okkur til þess að gera það.
Vinnum saman
Síðast en ekki síst erum við frambjóðendur á Íbúalistanum sammála um að stjórnsýsluna í Sveitarfélaginu Ölfusi þurfi að bæta. Við viljum ráða mannauðsstjóra til að styðja við og rækta mannauð sveitarfélagsins sem er mikilvægasta auðlindin sem við eigum. Við viljum auglýsa eftir bæjarstjóra og standa faglega að því ráðningarferli. Bæjarstjórn þarf að vinna saman að málefnum sveitarfélagsins og bæði minnihluti og meirihluti þarf að fá tækifæri til að fara vel ofan í málin, ólíkt því sem hefur verið uppi á teningnum síðustu fjögur árin. Við viljum styrkja samstarf við nágrannasveitarfélög og lýðræðisvæða Sveitarfélagið Ölfus með auknu samtali við íbúa eftir ólíkum leiðum. Gagnsæi í stjórnsýslu er eðlileg og sjálfsögð krafa og þar þarf að gera betur. Íbúalistinn ætlar að gera betur.
Íbúalistinn ætlar að auka lífsgæði aldraðra, bæta kjör fjölskyldna og leggja grunn að fjölbreyttu atvinnulífi. Við erum hér, í þjónustuhlutverki fyrir þig og alla íbúa í Sveitarfélaginu Ölfusi.
Finnir þú samleið með okkar gildum þá biðjum við um þinn stuðning. Merktu X við H.
Nánari upplýsingar um frambjóðendur og fleira eru inn á ibualistinn.is.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir
Oddviti Íbúalistans