Inga Lind: Vörum okkur á óskalistum

Það er gaman að vera í framboði. Þá hafa ótrúlega margir samband við mann og benda á hitt og þetta sem betur mætti fara.

Aldrei hef ég t.d. fengið eins marga tölvupósta á einum mánuði. Upp á síðkastið hefur póstum frá ýmsum hagsmunasamtökum fjölgað verulega. Þau vilja vita hvað mér finnst um að koma ákvæðum, sem snerta þau, inn í stjórnarskrána. Þessir póstar eru sendir á alla 523 frambjóðendurna og þeir ýmist beðnir um að svara í tölvupósti eða á heimasíðu viðkomandi samtaka.

Nú er það svo að öllum er frjálst að spyrja. Og senda tölvupósta. En þar sem það er engin skylda að svara, hef ég ákveðið að láta það vera í flestum tilfellum. Ástæðan er fyrst og fremst þessi:

Ég vil að kjósendur velji á kjörseðilinn sinn fólk sem hefur hagsmuni allrar þjóðarinnar í huga en ekki eingöngu hagsmuni tiltekinna hópa.

Stjórnlagaþingið ætti að forðast að bæta miklu við stjórnarskrána. Óskalistar og óljósar stefnuyfirlýsingar eiga ekki heima í henni. Jafnvel það sem sjálfsagt mætti teljast, á við frekari skoðun, ekki endilega heima í stjórnarskrá. Eins og t.d. að allir skyldu ganga vel um, vera kurteisir hver við annan og hugsa ávallt um hagsmuni komandi kynslóða. Stjórnarskráin okkar verður ekki betri með svona viðbótum, jafnvel þótt við séum öll sem eitt sammála um nauðsyn þess að þessi gildi séu í hávegum höfð.

Þokukenndar stefnuyfirlýsingar og óskalistar í stjórnarskrá myndu gera það að verkum að dómstólar þyrftu æ oftar að skera úr um mál og tækju ákvarðanir sem ættu með réttu að vera á borðum Alþingis.

Nær væri að styrkja stöðu Alþingis og að því eigum við að róa öllum árum. Frekar en að bæta öllu mögulegu og ómögulegu inn í stjórnarskrána, eigum við að einfalda hana og gera hana skiljanlega hverjum manni. Stjórnlagaþingið er tækifæri til þess og okkur ber að nýta það.

Inga Lind Karlsdóttir
#8749
www.ingalind.is

Fyrri greinHentu þýfinu út á ferð
Næsta greinLögreglan lagði ekki í hænuna