Í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fara þann 14. maí næstkomandi býður E-listinn fram í Grímsnes- og Grafningshreppi í annað skipti. Listinn er skipaður fólki sem hefur reynslu og þekkingu á sveitarstjórnarmálum í bland við fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á því sviði, en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa áhuga og metnað fyrir því að vinna í þágu samfélagsins.
Verkefnin sem bíða nýrrar sveitarstjórnar á komandi kjörtímabili eru fjölmörg, en fyrir utan þau lögskyldu verkefni sem sveitarfélaginu ber að sinna bíða spennandi verkefni á sviði uppbyggingar, eflingar innviða og stefnumótunar um framtíð sveitarfélagsins. Það er mikilvægt að þeir sem eru kjörnir af íbúum sveitarfélagsins til þess að stýra því séu meðvitaðir um þær áskoranir sem framundan eru, því að áskoranirnar leynast víða.
Húsnæðismál eru ofarlega á baugi í umræðunni um allt land, en sveitarfélagið þarf að sinna sínu hlutverki þar og gæta þess að lóðaframboð sé nægt til þess að uppbygging geti haldið áfram. Á liðnu kjörtímabili var öllum þeim lóðum sem skipulagðar höfðu verið í þéttbýli í landi sveitarfélagsins úthlutað, sem er mikið ánægjuefni. Það er hins vegar ekki farsæl staða að engar lausar lóðir séu í boði, og því þarf að hefjast strax handa við að skipuleggja næsta áfanga í uppbyggingu á íbúðasvæði á Borg og hefja gatnagerð í framhaldinu. Þar þarf að vanda til verka og aðlaga skipulagið að þörfum svæðisins, m.a. með því að gera ráð fyrir aukinni verslun og þjónustu á svæðinu til þess að færa meira af þjónustu nær íbúum sveitarfélagsins.
Stækkandi byggð fylgir aukin þörf fyrir öfluga innviði til þess að byggð þrífist á svæðinu. Á liðnu kjörtímabili var borað eftir köldu vatni og afhendingaröryggi þess tryggt til muna í austurhluta sveitarinnar. Það þarf hins vegar að horfa lengra en nokkur ár fram í tímann þegar kemur að vatnsöflun, og því er nauðsynlegt að ráðast í frekari aðgerðir þegar kemur að því að tryggja kalt vatn á sem flestum stöðum í sveitarfélaginu. Vatnsöflun í Kaldárhöfða gæti þar skipt sköpum og séð stórum hluta sveitarfélagsins fyrir köldu vatni um ókomna tíð.
Í hitaveitunni hefur búnaður verið efldur til þess að afla meira vatns og bæta nýtingu þess, en það er mikilvægt að farið sé vel með þá auðlind sem heita vatnið er og að nýting þess sé hámörkuð. Það liggur þó fyrir að frekari vatnsöflun er einnig nauðsynleg þegar kemur að heitu vatni og halda þarf áfram að leita leiða til að tryggja heitt vatn, bæði fyrir þá notendur sem nú þegar eru tengdir hitaveitunni og eins til þess að hægt sé að tengja fleiri nýja notendur.
Grímsnes- og Grafningshreppur er gott samfélag þar sem dreifbýli og þéttbýli mynda sterka heild. Mörg tækifæri eru til staðar til þess að styrkja stoðir þess enn frekar ef rétt er haldið á spilunum. Það er mikilvægt að þeir sem veljast til þess að stýra sveitarfélaginu nálgist það verkefni með jákvæðu og opnu hugarfari og séu tilbúnir að hlusta á vilja og þarfir íbúanna. Upplýsingaflæði til íbúa og annarra hagsmunaaðila þarf að vera gott og aðgengi þeirra að upplýsingum einnig. Lýðræði í sveitarfélagi á þannig ekki að vera bundið við kosningar á fjögurra ára fresti, heldur þarf að gæta þess að raddir íbúanna heyrist þegar teknar eru ákvarðanir um mikilvæg málefni, og að á þær sé hlustað. Þetta er fólkið sem skipar E-listann meðvitað um og stefnir að því að starfa áfram með það að leiðarljósi.
Steinar Sigurjónsson,
varaoddvitaefni E-listans í Grímsnes- og Grafningshreppi