Miðflokkurinn er nýtt róttækt stjórnmálaafl sem leitar skynsamlegustu lausnanna sama hvaðan hugmyndirnar koma. Stjórnmálaafl sem hefur kjark til að ryðjast í gegnum þær hindranir sem kerfið getur verið þegar mikilla breytinga er þörf.
Ísland allt er aðgerðaráætlun sem Miðflokkurinn hefur lagt fram til að ná ákveðnum kerfisbreytingum í gegn. Við ætlum að snúa margra áratuga dýrri vörn í arðbæra sókn.Við ætlum að innleiða skattalega hvata fyrir fólk og fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins. Við ætlum að lækka tryggingagjaldið og lækka það meira fyrir fyrstu 10 starfsmenn fyrirtækis sem aftur hentar sérstaklega vel fyrir mörg landsbyggðar-og nýsköpunarfyrirtæki. Við ætlum að efla á ný heilsugæslu og sérfræðilækningar á landsbyggðinni. Við ætlum að gera átak í byggingu þjónustuíbúða, bæta heimahjúkrun og fjölga hjúkrunarrýmum. Framantöld atriði eru nokkrar af þeim áherslum sem eru í Ísland Allt aðgerðaáætluninni og má sjá nánar á heimasíðu Miðflokksins, www.miðflokkurinn.is.
Vandi bænda
Stóra málið hjá okkur í bændastéttinni í dag er vandi sauðfjárbænda. Þann vanda verðum við að leysa með öllum ráðum sem allra fyrst, áður en í óefni er komið. Það er smán ef ekkert er að gert, það ætti að vera sameiginlegt markmið okkar að halda byggð í landinu öllu. Það getur ekki gengið upp að við sjálf og ferðamennirnir okkar, sem dásömum landið okkar fagra, sjáum bæi og bú í niðurníðslu á ferðalögum okkar um landið. Látum það ekki gerast, saman getum við lyft grettistaki. Eins verður að vera stöðugleiki hjá kúabændum, þeir verða að vita hvort það á að vera kvótakerfi með framseljanlegum rétti eða ekki. Þeir verða að vita hvort þeir eru að fjárfesta til framtíðar fyrir sig og sína afkomendur. Það verður að vera skýr framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað sem allir geta treyst og sér til þess að sú atvinnugrein blómstri.
Miðflokkurinn er afl sem þorir
Miðflokkurinn er nýtt stjórnmálaafl sem byggt er á traustum grunni. Við erum komin í stjórnmál til þess að framkvæma og erum ekki ákvarðanafælin. Við ætlum að láta lýðræðið virka á Íslandi. Við látum ekki kerfið segja okkur fyrir verkum né telja okkur trú um að engu sé hægt að breyta. Við ætlum að breyta fjármálakerfinu, lækka vexti, afnema verðtrygginguna, leiðrétta kjör eldri borgara, byggja nýjan landspítala og bæta samgöngur.
Kæri kjósandi, ég hef þá sýn að við séum öll mikilvægur hlekkur í stóru tannhjóli og að við öll skiptum miklu máli. Nú verðum við að standa saman sem þjóð, hlúa að hvort öðru og tryggja meðal annars unga fólkinu okkar aðgang að húsnæði með sanngjörnum vöxtum. Einnig verður að tryggja að fólk sé ekki borið út án þess að hafa öruggt húsaskjól. Að lokum að skilningur sé fyrir því að við erum öll jafn mikilvæg, jafnt bóndinn sem hver annar vinnandi maður í landinu.
X-M
Ásdís Bjarnadóttir
4. sæti M-lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi