Íþróttaskemman á Stokkseyri

Í iðnaðarhverfinu á Stokkseyri stendur gömul skemma sem upprunalega var notuð sem veiðarfærageymsla. Þessi skemma hefur nú í næstum þrjá áratugi verið notuð undir hina ýmsu íþróttaiðkun og samkomur með misjöfnum árangri.

Þar hefur verið reynt eftir fremsta megni að þjálfa t.d. fótbolta, fimleika, jóga, körfubolta, hjólaskauta, íþróttaskóla fyrir yngri börn, hreyfitíma fyrir fjölskyldur og ýmislegt fleira. Einnig hefur farið þar fram íþróttakennsla yngra stigs Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri og er þessi slæma aðstaða því hluti af húsnæðis vanda skólans. Í öðru óhentugu húsnæði hér í bænum er svo starfrækt lítil líkamsræktarstöð í sjálfboðavinnu sem notið hefur mikilla vinsælda. Þessa stöð ásamt þeim íþróttum sem hafa verið í boði hér í gegnum tíðina hafa ekki einungis heimamenn sótt heldur kemur fólk víða að.

Hús þessi eru löngu komin til ára sinna sem er þó eiginlega ekki hægt að fullyrða því varla er hægt að kalla íþróttaskemmuna húsnæði, hvað þá íþróttahús. Aðstaðan er með öllu óviðunandi fyrir unga sem aldna því staðsetningin er óhentug, rýmið er alltof lítið og lofthæðin gengur ekki upp. Aðstaðan í búnings klefunum í íþróttaskemmunni er vægast sagt slæm en þar mætti nefna plássleysi, gluggaleysi og það sem verra er skort á neyðarútgöngum.

Ljósmynd/Aðsend

Í íþrótta- og tómstundastefnu sveitarfélagsins Árborgar kemur m.a. þetta fram: „Að gæta jafnræðis í hvívetna og veita öllum tækifæri til að eflast og þroskast á eigin forsendum, óháð efnahag, búsetu, aldri, kyni, kynþætti, kynhneigð eða annarri sérstöðu og efla þar með félagsauðinn. Að fjölga þátttakendum og bæta almennt heilsufar íbúanna og leitast við að bjóða ávallt upp á bestu mögulegu aðstæður til æfinga og keppni.“

Framtíðarsýnin sem hefur verið við lýði í ansi mörg ár er að starfrækja hér í hjarta bæjarins öfluga íþróttamiðstöð sem myndi styrkja lýðheilsu íbúa sem og annarra sem hingað sækja þjónustu og afþreyingu. Samhliða þessu gætu skapast aukin atvinnutækifæri sem ekki veitir af en eins og kannski sumir muna eftir þá hvarf héðan ansi stór vinnustaður fyrir um fimm árum síðan. Hvorki kjósa allir né hafa tök á að keyra langt til vinnu.

Samstaðan hér við ströndina er með eindæmum góð svo nú er tækifærið okkar allra til að öðlast það heilsueflandi umhverfi sem við eigum skilið!

Virðingarfyllst,
Herdís Sif Ásmundsdóttir
Tveggja barna móðir, uppalin og búsett á Stokkseyri
Starfsmaður í grunnskóla
Hjúkrunarfræðingur
Meistaranemi í heilsueflingu

Fyrri greinFramboðslisti E-listans kynntur
Næsta greinSigurður Torfi leiðir lista Vg í Árborg