Jöfnum leikinn á laugardaginn

Ísland er um margt gott samfélag en í grundvallartriðum stendur það öðrum Norðurlöndum að baki. Þegar kemur að nýtingu auðlinda og afli velferðarkerfisins skilur á milli Íslands og annarra norrænna ríkja.

Það þarf að jafna leikinn.

Ókeypis nýting auðlinda þjóðarinnar hefur síðustu áratugina alið af sér spillingu og fádæma auðsöfnun fárra einstaklinga. Í skugga þess eykst ójöfnuður og innviðir velferðarkerfisins molna.

Stjórnarflokkarnir hafa tekið fyrir það að almenningur ráði sínum ráðum sjálfur um framtíðartengsl þjóðarinnar við Evrópusambandið. Þar með möguleika á upptöku stöðugrar, lágvaxa myntar þar sem verðtrygging þekkist ekki.

Þegar að því kemur á þjóðin sjálf að ráða því hvort haldið verði áfram með aðildarviðræðurnar við sambandið. Hinsvegar er grundvallaratriði að ná góðri samstöðu um málið fyrst, bæði á meðal atvinnurekenda og vinnandi fólks.

Án slíkrar samstöðu þrömmum við áfram fram og aftur blindgötuna.

Almenningur er fastur í fjötrum okurvaxta og mikils óstöðugleika í efnahagsmálum. Nú er tækifæri til þess að breyta íslensku samfélagi í grundvallaratriðum með kjörseðlinum næsta laugardag.

Samfylkingin – flokkur jafnaðarfólks – er mætt aftur til leiks öflugri en nokkru sinni fyrr. Flokkurinn boðar nýtt upphaf í velferðar- og efnahagsmálum undir forystu Kristrúnar Frostadóttur, sem nýtur einstaks trausts langt út fyrir raðir flokksins.

Jöfnum leikinn á laugardaginn.

Björgvin G. Sigurssson,
fyrrv. alþingismaður og ráðherra.

Fyrri greinUnited Silicon í Reykjanesbæ – víti til varnaðar fyrir Ölfus!
Næsta greinGuðrún Árný með jólatónleika á Suðurlandi í næstu viku