Þann 27. nóvember næstkomandi mun þjóðin kjósa fulltrúa á stjórnlagaþing.
Um persónukjör er að ræða og er landið eitt kjördæmi. Kjósendur þurfa ekki að merkja við fleiri en einn frambjóðanda á sínum kjörseðli en geta þó nýtt atkvæði sín til fulls og raðað 25 frambjóðendum á seðilinn.
Ég hef boðið mig fram til setu á stjórnlagaþingi og vonast eftir tækifæri til að koma að mótun nýrrar íslenskrar stjórnarskrár. Með sterka réttlætis- og siðferðiskennd að vopni og þrá um betra Ísland mun ég vinna af heilindum til að tryggja að stjórnlagaþingið nái saman um betri stjórnarskrá til handa íslensku þjóðinni. Undanfarin ár hafa verið okkur erfið og nú sem aldrei fyrr er þörf á samvinnu. Stjórnarskrá lýðveldisins er grundvallarsamkomulag þjóðarinnar um réttlæti, mannréttindi, velferð, siðferði, og frelsi og því er nauðsynlegt að vanda vinnuna fyrir komandi kynslóðir.
Fyrir þau ykkar sem þekkið mig ekki ætla ég að byrja á því að kynna mig dálítið. En ég er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Eftir grunnskólapróf lá leið mín í Verzlunarskóla Íslands þar sem ég lauk Verslunarprófi. Fór svo eitt ár sem skiptinemi til Bandaríkjanna og kom svo heim og kláraði stúdentsprófið. Lauk svo námi í iðnrekstrarfræði og nam viðskiptafræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Jafnframt er ég löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali, löggiltur leigumiðlari og með réttindi til að gera eignaskiptasamninga. Í gegnum tíðina hef ég svo tekið ýmis námskeið í öllu milli himins og jarðar. Ég hef víðtæka starfsreynslu og hef unnið við fiskvinnslu, þrif, kennslu, ýmis skrifstofu-, verslunar- og bankastörf, starfað sem innkaupastjóri, verkefnastjóri og hef undanfarin ár rekið Fasteignahöllina í Reykjanesbæ.
Mikið hefur verið spurt um hagsmunatengsl frambjóðenda til stjórnlagaþings en ég er algjörlega í framboði á mínum eigin forsendum. Ég hef eytt ca. 8.000 kr. í kosningabaráttuna mína, með því að borga hýsingu á vefsíðu framboðsins: www.johannag.is. Þar fyrir utan sit ég í tveimur stjórnum, þ.e. stjórn Félags fasteignasala, en það er ólaunuð vinna, unnin af hugsjóninni einni saman og svo rek ég mína eigin fasteignsölu sem leiðir til þess að ég sit sjálfkrafa í stjórn þess félags.
Ég á 3 börn á aldrinum 16, 12 og 9. Björt framtíð þeim til handa skiptir mig öllu máli og framboð mitt til stjórnlagaþings er einn liður í því að byggja upp betra Ísland fyrir komandi kynslóðir.
Mín skoðun er sú að það þurfi að taka stjórnarskrána til gagngerrar endurskoðunar. Hún á að vera samin af Íslendingum fyrir Íslendinga og vera auðskilin þannig að ekki sé hægt að mistúlka lagagreinarnar. Jafnframt vil ég tryggja að íslenskan sé tryggð sem okkar þjóðtunga. Svo þarf að yfirfara niðurstöður Þjóðfundarins og bæta inn og betrumbæta þar sem við á.
Af nógu er að taka en það helsta sem ég legg áherslu á er að við yfirförum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og tryggjum jafnrétti allra Íslendinga. Ég vil jafnframt skerpa á þrískiptingu valdsins og setja öllum valdhöfum skýran ramma, t.d. með tímamörkum á setu þeirra í embætti, auknu aðhaldi og eftirliti auk strangra viðurlaga við brotum í starfi o.s.frv. Jafnframt myndi ég vilja að þessir valdhafar væru kosnir beint af þjóðinni. Einnig vil ég tryggja þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg málefni. Ég vil sjá náttúruauðlindirnar í þjóðareigu og endurskoða forsetaembættið. Auk þess vil ég jafna atkvæðavægi landsmanna og í framhaldi af því að finna út úr kjördæmamálum.
Ég legg þó áherslu á það að ég stefni ekki inn á stjórnlagaþing til að þröngva mínum skoðunum fram. Ég stefni inn á stjórnlagaþing með opnum hug með það að leiðarljósi að hagsmunir þjóðarinnar eigi ávalt að ráða för.
Ég bíð fram krafta mína og vonast eftir þínum stuðningi til setu á stjórnlagaþingi. Vinnusemi, heiðarleiki og gegnsæi í öllum vinnubrögðum er mitt loforð. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir og því óska ég eftir þínu atkvæði.
Bestu kveðjur,
Frambjóðandi nr: 5317, Jóhanna Guðmundsdóttir