Safnhelgi Suðurlands hefst með opnunarhátíð í Listasafni Árnesinga í Hveragerði þann 4. nóvember nk.
Kammerkór Suðurlands mun syngja við opnunina en kórinn fagnaði nýverið úgáfu hljómdisks með söngverkum eftir breska tónskáldið Sir John Tavener sem hlaut mikið lof. Kynning verður á matarkistu Hvergerðinga en matreiðslumenn frá Heilsustofnun NLFÍ og Eden töfra fram góðar veitingar. Nýr ís frá Kjörís, rabarbaraís, verður framleiddur fyrir opnunarhátíðina en ísinn er gerður í samstarfi við Löngumýrarbændur. Við sama tækifæri verður opnuð ný sýning í Listasafninu. Í henni taka þátt margir helstu listamenn þjóðarinnar, vinna þeir við ýmsa miðla og beita blandaðri tækni. Vinnuheiti sýningarinnar er „Þjóðleg list.” Sýningarstjórn er í höndum Hannesar Lárussonar myndlistarmanns og staðarhaldara Íslenska bæjarins í Flóanum, Tinnu Grétarsdóttur mannfræðings og Ásmundar Ásmundssonar myndlistarmanns.
Hverabakstur, landnámshænur og fótaböð
Auk opnunarhátíðar verða menningarviðburðir víða um Hveragerðisbæ um safnahelgina ásamt sérstökum matseðli hjá þeim sem selja veitingar. Meðal annars verður gestum og gangandi boðið upp á leiðsögn um hverasvæðið í Hveragarðinum og hverabakað rúgbrauð tekið úr holu. Landnámshænur verða á vappinu og opið fyrir fótaböð í leir og hver. Einnig verður lista- og handverksfólk með muni til sýnis og sölu. Saga Hveragerðis er sögð í máli og myndum á söguskiltum sem mynda söguhring í bænum sem gaman er að ganga á milli.
Bókakaffi, Stútungasaga og fiskar á flugu
Í Þorlákshöfn verður efnt til bókakaffis á Bæjarbókasafni Ölfuss. Allir sem áhuga hafa geta lesið upp ljóð, gjarnan frumsamið eða örsögur. Leikfélag Ölfuss verður með sýningar í Ráðhúsinu bæði föstudags- og laugardagskvöld á leikverkinu Stútungasögu, gaman- og stríðsleik sem gerist undir lok þjóðveldisaldar. Sett verður upp hlaðborð í Ráðhúskaffi fyrir sýningar, en einnig verða kræsingar að fá á veitingastaðnum Hafinu Bláa, en þar opnar Ella Rósinkrans glerlistasýninguna „fiskar á flugu” á föstudeginum.
Afurðasamkeppni á Gónhól
Í tilefni af Sunnlenskri safnahelgi hvetur Matarklasi Suðurlands Sunnlendinga og aðra sem hafa áhuga á afurðavinnslu úr íslenskri uppskeru til að virkja sköpunarkraftinn og senda inn uppskriftir í afurðasamkeppni. Úrslitin verða tilkynnt á Gónhól sunnudaginn 7. nóvember kl. 16 en þessa helgi mun einnig verða boðið uppá afurðasmakk frá þátttakendum á Gónhól laugardag og sunnudag frá kl. 13-17.
Dómnefndin er skipuð valinkunnum sælkerum og sultusérfræðingum en vegleg verðlaun verða í boði.
Öllum eru velkomið að taka þátt en skila þarf inn uppskriftum og tilkynna þátttöku fyrir 1.nóvember. Þátttökureglur eru að finna á vefsíðunum www.gonholl.is og www.sunnanmenning.is
Kynnið ykkur vel dagskrá safnahelgar sem haldin er á Suðurlandi 5. – 7. nóvember á www.sunnanmenning.is og njótið helgarinnar. Einnig verður dagskráin birt í fjölmiðum.
Jóhanna M. Hjartardóttir
Menningar- og frístundafulltrúi Hveragerðis