Nýverið var haldinn bæjarstjórnarfundur þar sem fjárhagsáætlun fyrir komandi ár var til umræðu og að lokum afgreiðslu. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er erfið og vantar fé svo að endar nái saman.
Bæjarstjórnin í heild sinni er að tryggja sveitarfélaginu fjármagn til komandi ára með aðhaldsaðgerðum, lántökum og hækkun gjalda. Staðan er vissulega krefjandi en sjóðir þurfa að vera hæfilegir og skuldir lágar í hlutfalli við eignir og tekjur. Í krefjandi aðstæðum finnast ávallt tækifæri. Á bæjarstjórnarfundi þann 14. desember kom fram skýr vilji hjá meirihluta og minnihluta til sölu á hluta af eignum sveitarfélagsins. Markmið sölu er að greiða skuldir og lækka fjármagnskostnað komandi ára.
Við í Framsókn setjum fyrirvara við eignasölur. Mikilvægt er að hámarka söluverðmæti og að vandað sé til verka við sölu á eignum samfélagsins.
Hækkun gjalda
Meirihlutinn tók ákvörðun um að hækka allar gjaldskrár sveitarfélagsins mestpart um 9% frá fyrra ári. Hækkun gjalda var í takti við verðbólguspá komandi árs. Í ríkisfjármálum 2023 voru öll gjöld hækkuð um 7,7% til að mæta hækkun gjalda og krefjandi efnahag landsins. Hækkun gjalda hjá ríkinu er framkvæmd til að fjármagna lögbundna þjónustu. Ljóst er að 9% hækkun er veruleg. Að hluta er hækkunin skýrð út sem leiðrétting á gjaldskrám vegna mikillar verðbólgu undanfarna mánuði og fyrirsjáanlega verðbólgu komandi árs. Við í Framsókn teljum að heppilegra hefði verið að hefja sparnaðaraðgerðir hjá sveitarfélaginu áður en ráðist var í hækkun gjaldskráa. Fjárhagsstaða fjölskyldufólks er erfið vegna hærra matvöruverðs og nánast allra gjalda heimilanna. Gjaldskrárhækkunin mun einnig koma verst niður á lágtekjufólki. Huga þarf sérstaklega að lágtekjufólki þegar teknar eru ákvarðanir um hækkun á gjaldskrám. Við í Framsókn teljum mikilvægt að hækkun á gjaldskrám komi til endurskoðunar þegar fjárhagur sveitarfélagsins batnar. Mikil fólksfjölgun hefur kallað á innviðauppbyggingu og mun taka tíma að ná jafnvægi í fjármálum Árborgar. Það skal þó engan undra að fólk flytji í Árborg. Hér er gott að búa og þjónusta sveitarfélagsins er aðgengileg fyrir alla.
Uppbygging og framtíðarsýn
Undanfarin ár hefur sveitarfélagið skipulagt og úthlutað lóðum til að mæta eftirspurn. Nú þarf að staldra við og skoða hvort þjónustan sem í boði er geti þjónustað íbúa Árborgar. Um þessar mundir er verið að leggja drög að úthlutun lóða í byggðakjörnunum þremur. Á Eyrarbakka er deiliskipulag tilbúið fyrir áframhaldandi byggð í Hjalladæl. Þá er einnig áformað að bjóða út lausar lóðir víðar um bæinn með tilliti til þéttingar í byggð. Á Stokkseyri verða boðnar út lóðir í Dvergasteinum og Heiðarbrún á komandi ári. Byggð verður þétt á Selfossi og er undirbúningur að útboði á lóðum í gangi og hefst fljótlega á komandi ári. Áframhald verður á uppbyggingu í Árborg en þó með hægari takti en verið hefur undanfarin ár.
Farsældin og atvinnulífið
Verkefni bæjarfulltrúa í Árborgar eru ærin en þar má einna helst nefna áframhaldandi fjárfestingu í fólki. Sveitarfélagið Árborg er leiðandi í málefnum barna og er fyrirmyndarsveitarfélag þegar kemur að innleiðingu laga um farsæld í þágu barna. Þar hefur vel tekist til og starfið við að tryggja farsæld og velferð barna er viðvarandi verkefni sem líkur aldrei. Fjölskyldan þarf þó öll að þrífast í samfélaginu og er uppbygging atvinnulífs lykilþáttur í þeirri vegferð sem framundan er. Við þurfum að leita leiða til að laða störf á svæðið bæði í grunnþjónustu en einnig störf tengd stjórnsýslu og fyrir þá sem hafa sótt sér háskólamenntun svo við getum boðið þeim upp á störf hér á svæðinu án þess að þurfa að leggja leið sína yfir fjallveg dag hvern.
Miðbær Selfoss og Bankinn vinnustofa hafa spilað stórt hlutverk í atvinnuuppbyggingu Árborgar. Nú gefst fólki tækifæri til að starfa fjarri vinnustað í aðstöðu sem er til fyrirmyndar. Frekari uppbygging atvinnulífs er grundvallaratriði í framtíðarsýn samfélagsins. Menningarlíf blómstrar og hér sjáum við ferðamenn sækja sveitarfélagið okkar heim og er virkilega gaman að sjá menningarlífið vaxa og dafna með tilkomu miðbæjarins.
Við í Framsókn leggjum áherslu á að íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, sem einkennt hefur sveitarfélagið undanfarin ár, haldi áfram að vaxa og dafna. Íþróttaiðkun spilar stórt hlutverk í öflugu forvarnarstarfi en á nýju ári þarf að fara í átak í því hvernig við grípum utan um börn sem eiga á hættu á að villast af braut. Þar kemur íþróttahreyfingin inn með mikilvæga þjónustu. Þá mun uppbygging halda áfram í mennta- og fræðslumálum með stækkun leikskóla og áframhaldi á uppbyggingu Stekkjaskóla. Uppbygging mannvirkja í sveitarfélaginu er kostnaðarsöm en nauðsynleg. Menntun barna er hluti af grunnþjónustu Sveitarfélagsins og verður að standa þannig að málum að börnum okkar líði vel í skólum sveitarfélagsins. Einnig ber að nefna fólkið sem lagði grunninn að því sem við ætlum að byggja framtíðina á. Við verðum að virkja öldungaráðið og vera í öflugu samtali við eldri borgara um þá þjónustu sem við veitum í Árborg.
Jólakveðjur
Það sem af er kjörtímabilinu höfum við í Framsókn lagt okkur fram við að starfa af heilindum og með samvinnuhugsjónina að leiðarljósi. Við horfum björtum augum fram á veginn og vonumst eftir áframhaldandi góðu samstarfi við meirihlutann á nýju ári. Einnig hlökkum við til að taka samtalið við íbúa um hin ýmsu verkefni sem huga þarf að í Árborg. Að lokum viljum við þakka ykkur fyrir ómetanlegan stuðning og alla þá hvatningu sem við fundum vel fyrir í kosningunum síðastliðið vor.
Við í Framsókn sendum öllum okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári.
Arnar Freyr Ólafsson og Ellý Tómasdóttir,
bæjarfulltrúar Framsóknar í Árborg