Kílómetragjald – Landsbyggðarskattur í felubúning?

Nú liggur frammi í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp um kílómetragjald á ökutæki. Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að tekið verði upp gjald sem rukkað verði fyrir hvern ekinn kílómetra í samræmi við þyngd ökutækis, og leysi af hólmi núverandi bensín- og olíugjald. Mín skoðun er sú að þetta fyrirkomulag hafi mjög ójöfn áhrif á ökutækjaeigendur eftir því hvar þeir búa.

Það er ekki annað að sjá en að þetta nýja fyrirkomulag muni hafa slæm áhrif á íbúa og fyrirtæki í Rangárþingi ytra sem og landsbyggðina alla, og þýða skert lífsgæði í dreifbýlinu. Í okkar sveitarfélagi er algengt að fólk aki á bilinu 70-100 km daglega til vinnu og/eða náms og til þess að sækja sér þjónustu. Þar sem gert er ráð fyrir að greitt sé fyrir hvern ekinn kílómetra segir það sig sjálft að þessar hugmyndir leggjast mun þyngra á íbúa í dreifbýli heldur en í þéttbýli.

Einnig þarf að hafa í huga að almennt er ekki valkostur í hinum dreifðu byggðum að nýta sér almenningssamgöngur þar sem slíkt er sjaldnast í boði, því er einkabíllinn eini raunhæfi samgöngumátinn. Það er því nokkuð ljóst að nýr kostnaður eins og sá sem hér er boðaður mun einkum bitna á íbúum og fyrirtækjum á landsbyggðinni.

Grímulaus og vanhugsaður landsbyggðarskattur
Það er mín skoðun að verði þessar hugmyndir að lögum muni það þýða ósanngjarna mismunum gagnvart íbúum landsbyggðarinnar, og grefur á sama tíma undan háleitum markmiðum stjórnvalda um jöfn búsetuskilyrði um land allt. Við eigum ekki að sætta okkur við að greiða hlutfallslega meira fyrir að komast á milli staða en íbúar í þéttbýli. Allt tal um að um að lækkun olíugjalds muni vega upp á móti fyrirhugaðri skattheimtu hljómar ekki vel í mínum eyrum. Ef einhver alvara væri á bakvið það þyrfti að setja samhliða lög á verðhækkunarheimildir olíufélaganna ég hef hvergi séð neinar hugmyndir í þá átt.

Ég skora á fjármálaráðherra að skoða ofan í kjölinn áhrif þessara laga á íbúa og fyrirtæki í dreifbýlinu áður en endanleg ákvörðun er tekin. Einkum til þess að forða því að fyrirhuguð lagasetning virki eins og aðför að íbúum og fyrirtækjum á landsbyggðinni. Ég legg til við fjármálaráðherra að hann einhendi sér í þá vinnu að finna réttlátari leiðir til þess að fjármagna samgöngukerfið sem taki betra tillit til þarfa og aðstæðna allra landsmanna, svo að ekki verði gengið freklega á samkeppnishæfni atvinnulífs né búsetugæði sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að landsbyggðarþingmenn hvar svo sem þeir í flokki standa, samþykki þessi lög óbreytt. Kílómetragjaldið er grímulaus og vanhugsaður landsbyggðarskattur í lélegum felubúning.

Eggert Valur Guðmundsson
Oddviti sveitarstjórnar Rangárþings ytra

Fyrri greinFærðu safninu ljósmóðurtösku Magnhildar
Næsta greinFrumskógar buðu lægst í byggingu tæknirýmis