Matvæla- og mataröyggi landsins er gríðarlega mikilvægt. Þar leika bændur aðalhlutverkið. Þeirra er ræktunin og framleiðslan á jörðum sínum. Þar er mikilvægt að tryggja að umhverfissjónamið og sjálfbærni sé í hávegum höfð og sanngjarnt álag á vistkerfin, náttúru og loftslag. Tryggja þarf búsetu bænda um allt land og sporna við því að býli og landbúnaður falli í hendur á fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum með tilheyrandi hagnaðarsjónarmiðum og aðferðum sem hámarka gróða með neikvæðum áhrifum á hollustu, dýravelferð og vistálag. Þess vegna verður að styðja við bændur og liðka fyrir ættliðaskiptum og kaupum á bújörðum.
Fast er sótt að bændum og bújörðum og iðnvæddur landbúnaður handan við hornið ef ekki verður að gáð. Einnig er ásókn í jarðir vegna skógræktar þar sem kolefnisbarónar vilja kolefnisjafna iðnaðarmengun Evrópu. Á tímum loftlagshlýnunar er mikilvægt að landbúnaður sé í sátt við umhverfið, styðji við kolefnisbindingu en ekki síður líffræðilegan fjölbreytileika því í moldinni er upphafið og lykillinn að lífinu. Lífrænn landbúnaður getur verið stór hluti að þessu öllu saman styður við lífbreytileika og byggir upp jarðveg og niðurtöku næringarefna og þar með öflugur í kolefnisbindingu.
Árið 2023 kynnti þáverandi matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, aðgerðaáætlun til eflingar lífræns landbúnaðar. Grunnur að aðgerðum voru samtöl við fjölmarga aðila innanlands ásamt því að stuðst var við sambærilegar stefnur á hinum Norðurlöndunum og á vettvangi Evrópusambandsins. Víða eru háleit markmið um aukna hlutdeild lífrænna afurða og liður í að styrkja samkeppnisstöðu Íslands gagnvart nágrannalöndum sem og einnig innlendrar matvælaframleiðslu gagnvart innflutningi.
Lífræn ræktun er til þess fallin að vernda líffræðilega fjölbreytni sem dæmi og er lykilþáttur í að auka sjálfbærni íslensks landbúnaðar. Við verðum að beina sjónum og athygli neytenda að kostum lífrænnar framleiðslu þar sem minna álag er á vistkerfi og sjálfbærni og dýravelferð í forgrunni enda fer eftirspurn eftir lífrænni framleiðslu vaxandi. Enda um hollar afurðir að ræða með meira næringargildi og því verðmæti fyrir lýðheilsu.
Lífrænn búskapur og þá lífræn ræktun leggur mikla áherslu á dýravelferð og umhverfisvernd. Ferli við ræktun og framleiðslu er gjarnan ólíkt þó afurðirnar líti eins út og aðrar. Reglugerð gerir skýrar kröfur til lífræns landbúnaðar og til að megi merkja vörur merki lífrænnar vottunar þarf faggilda vottunarstofu til. Þó er aðgengi að góðum lífrænum áburði helsta hindurm lífræns landbúnaðar. Ljós í myrkrinu er að landeldisfyrirtæki hafa hug á að vinna áburð úr úrgangi sem gæti nýst bændum. Á heimasíðu Lífræns Íslands má finna góðar upplýsingar og fréttir af lífrænni framleiðslu þar sem umhverfisvernd og framleiðsla afurða í hæsta gæðaflokki fer saman með lýðheilsu og dýravernd í forgrunni.
Íslensk stjórnvöld hafa sett fram þau viðmið að árið 2040 verði lífrænt vottuð framleiðsla 10% af landsframleiðslu í landbúnaði. Við teljum að það megi gera mun betur. Í tíð Svandísar Svavarsdóttur var unnin fyrsta stefnan um íslenskan landbúnað sem er metnaðarfull og góð. Með auknum stuðningi við bændur, lífræna ræktun og framleiðslu ætti að vera hægt að ná mun háleitari markmiðum með umhverfisvernd og lýðheilsu í forgrunni. Það er vinstra mál og fyrir það stöndum við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði.
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,
oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi