Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti á síðasta sveitarstjórnarfundi að lækka leikskólagjöld um 25%.
Meirihlutinn hafði lagt til að láta gera samanburðarkönnun á leikskólagjöldum á landsvísu sem unnin var af PWC. Niðurstöður könnunarinnar eru aðgengilegar á vef sveitarfélagsins, en þær leiddu til þeirrar niðurstöðu að raunhæft væri að lækka leikskólagjöldin um 25%, enda yfirlýst markmið meirihlutans að leikskólagjöld séu undir landsmeðaltali.
Í Rangárþingi eystra er unnið metnaðarfullt starf í leik- og grunnskóla auk frumkvöðlastarfs í aukinni samvinnu beggja skólastiga sem vaxið hefur og dafnað undir styrkri stjórn þess góða starfsfólks sem hjá menntastofnunum sveitarfélagsins starfar. Úr þessu á ekki að draga á nokkurn hátt, heldur halda áfram að gera gott starf ennþá betra, enda eru góðar menntastofnanir ein af forsendum við val fólks á búsetuúrræðum.
Rangárþing eystra er eftirsóttur staður til að búa á. Auk öflugs skólastarfs er útivistar og íþróttaaðstaða til fyrirmyndar, fjölbreytt tómstundastarf og félagsstarf eldri borgara blómstrar. Ætlunin er einnig að vinna ötullega að því að auka búsetuúrræði fyrir aldraða og er sú vinna í fullum gangi. Það er markmið sveitarstjórnar að gera Rangárþing eystra að enn eftirsóttari stað fyrir fjölskyldufólk að búa á.
Lilja Einarsdóttir,
oddviti, Rangárþingi eystra