Ljósmæður á Íslandi bera hita og þunga allrar þeirrar þjónustu sem þungaðar konur og fjölskyldur þeirra þiggja í gegnum barneignaferlið. Ljósmæður á Suðurlandi eru engin undantekning og sinna ljósmæður deildarinnar öllum þáttum barneignaferlisins, allt frá snemmþungun og þangað til sængurlegu lýkur. Í vinnu ljósmæðra deildarinnar er lögð mikil áhersla á að farið sé eftir bestu og gagnreyndustu þekkingu í faginu hverju sinni. Á deildinni starfar öflugur, vel menntaður og reynslumikill hópur ljósmæðra sem vinnur í góðu samstarfi við aðrar stéttir heilbrigðiskerfisins.
Þjónusta deildarinnar breyttist mikið eftir efnahagshrunið 2008 en þær breytingar fólu m.a. í sér að vaktir fæðingalækna voru lagðar niður og deildin varð ljósmæðrarekin. Við þær breytingar var ekki lengur hægt að bjóða öllum konum upp á að fæða á deildinni, fæðingum fækkaði og spurningar vöknuðu í samfélaginu um hvað það væri annað sem ljósmæður gerðu en að taka á móti nýjum Sunnlendingum.
Starf ljósmæðra við stofnunina er mjög fjölbreytt og felst m.a. í því að veita ráðgjöf og stuðning, bæði í gegnum fyrirframákveðna símatíma eða tíma hjá ljósmóður á deildinni, mæðravernd, bráðakomur, sónarskoðanir, fæðingar, sængurlegu og krabbameinsleit. Ljósmæður deildarinnar sinna einnig mæðravernd á heilsugæslustöðvum í sveitafélögunum í nágrenninu. Þar má nefna Hveragerði, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjar, Vík, Klaustur, Laugarás og Rangárþing.
Ljósmæðravakt HSU á í góðu samstarfi við fæðingarlækna og ljósmæður Landspítala sem gerir það að verkum að konur sem þurfa aukið eftirlit og ættu að þiggja alla þjónustu á LSH eiga margar þess kost að fá hluta hennar í heimabyggð. Á Ljósmæðravaktinni á Selfossi mega allar hraustar, fullmeðgengnar konur sem ganga með einbura fæða börn sín. Þær konur sem eiga þess kost að fæða á HSU og kjósa þann valkost þurfa því ekki að ferðast til Reykjavíkur í fæðingu og njóta þess í stað persónulegrar þjónustu í heimabyggð. Ánægjulegt er að segja frá því að fjöldi fæðinga í ágúst á þessu ári var komin yfir heildarfjölda fæðinga síðasta árs.
Fjölgun íbúa á Suðurlandi er stöðug og hefur íbúafjöldi í Árborg aukist um rúma 2000 íbúa frá árinu 2014 til ársins 2019. Ekkert lát virðist vera á þessari fjölgun og kjósa margar ungar barnafjölskyldur að flytja á Suðurlandið. Það gefur auga leið að með auknum fjölda íbúa eykst sú þjónusta sem ljósmæður þurfa að veita til verðandi foreldra. Ljósmæður vilja sinna þeim verkefnum af alúð og veita persónulega og góða þjónustu. Ljósmæðrarekin þjónusta er því umsvifamikil starfsemi og krefst fjármagns líkt og önnur heilbrigðisþjónusta. Það þarf því að huga vel að uppbyggingu þjónustunnar næstu ár og áratugi. Ljósmæður HSU leggja sig fram um að veita góða, faglega þjónustu og hafa mikinn metnað hvað framtíðaráætlanir varðar. Ljósmæður á Suðurlandi sjá fyrir sér að Ljósmæðravakt HSU komi til með að vaxa og dafna í framtíðinni með auknum fjölda þjónustuþega og vaxandi verkefnum sem ljósmæður taka fagnandi á móti.
Arndís Mogensen,
ljósmóðir HSU Selfossi
Gunnhildur Rán Hjaltadóttir,
ljósmóðir HSU Selfossi