Sem ein af hinum hrifnu áheyrendum í þéttsetinni Víðistaðakirkju síðastliðinn sunnudag, langar mig að þakka Karlakór Hreppamanna fyrir óperuveisluna og óska þeim til hamingju með tónleikana.
Óperan er það tónlistarform sem hæst rís og kórar óperubókmenntanna kröfuharðir og um leið vel þekktir í hljóðritunum heimsþekktra kóra.
Það var því mikil upplifun að hlusta á svo góðan flutning, þar sem kórmenn víluðu hvorki fyrir sér frönsku, þýsku, ítölsku né að syngja allt utanað. Efnisskráin var sérlega vel uppbyggð og góðar kynningar hjálpuðu til þess að blóðhiti sígarettusenunnar með Carmen, kraftur sjómannakórsins úr Hollendingnum fljúgandi og hugljúf nætursteming Madama Butterfly hríslaðist um okkur þegar Elsa Waage, Gissur Páll og kórinn lögðu saman.
Kórastarf er bæði gleðigjafi fyrir þátttakendur og hlustendur og um leið mjög mikilvægur hlekkur í menningarlífi landsins. Karlakór Hreppamanna, Edit og Miklos ganga á undan með góðu fordæmi og sýna hvers virði það er að glíma við tónlistargyðjuna á alþjóðlegum nótum!
Hjartans þakkir fyrir ógleymanlega tónlistarstund.
Margrét Bóasdóttir, Skálholti