Það var einu sinni í skóla langt í burtu að kennari í bekk vildi kaffi á morgnana. Sem er ekki neitt sérstök staðreynd. En þessi kennari hellti ekki upp á kaffið sitt sjálfur, sem er heldur venjulegt líka. Það sem er sérstakt við þessa kaffisögu er að nemendur skiptust á að hella upp á fyrir kennarann. Inni í skólastofunni var lítil kaffikanna úr leir, kaffisigti, box með kaffi og skeið til þess að koma kaffinu í sigtið. Nemendum var skipt í hópa og í hverjum hóp voru þrír nemendur. Þeir nemendur sem kunnu kenndu þeim sem ekki kunnu. Á hverjum morgni fékk kennarinn kaffi sem nemendur hans höfðu lagað fyrir hann. Kaffið var drukkið inni í kennslustund. Kennarinn þakkaði fyrir sig og lofaði kaffið og kennslan hélt áfram.
Hvert er inntakið í þessari sögu. Jú, það að við sem hópverur viljum og höfum ríka þörf fyrir að tilheyra og mynda þannig tengsl við umhverfið og okkur sjálf. Er það veruleikinn sem við höfum búið til í íslensku skólakerfi?
Starfsmenntun og skólaskylda
Það var ástæða fyrir því að skólaskyldu var komið á hér á landi. Skólaskyldan átti á sínum tíma að stuðla að almennum lestri og grunnþekkingu á sviði náttúrufræði og reiknings. Þessi tilhögun var mikil bót og ekki síst fyrir almenning í landinu. Þó hefur uppröðun kennslugreina ekki breyst mikið síðan 1907. Það er enn svo að við metum list- tækni- og verkmenntun ekki til jafns við bóklega menntun og má það að hluta til rekja það til hefðarinnar í uppröðun námsgreina.
Samfélag breytinga, eins og það sem við erum að upplifa núna, þarf á skapandi hugsun og tækni- og verkviti að halda. Það er algerlega ljóst að uppbygging í þessum greinum er nauðsynleg en hún má ekki eingöngu eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu. List-, verk og tæknimenntun þarf að byggja upp með jöfnuð að leiðarljósi um allt land. Eins og er er iðnnám á landsbyggðinni ekki í boði, ekki kannski alls kostar rétt, en til þess að klára námið, þarf einstaklingur oft að fara langa leið. Sem dæmi frá Suðurlandi á Norðurland, með tilheyrandi kostnaði fyrir nemandann. Þetta er bara lítið dæmi um veruleika landsbyggðarinnar og er af mörgu að taka.
Almenn menntun
Er ljóst hvert inntak eða grundvallartilgangur almennar menntunar er árið 2021? Viljum við að almenn menntun sé starfsundirbúningur byggður á fræðslu, eða undirbúningur undir gott og innihaldsríkt líf einstaklingsins, honum og öðrum til farsældar og þroska?
Fyrir utan það að skólar landsins hafa ekki fjármagn til að fylgja þeim ramma sem settur er, þá búum við einnig við mjög alvarlegan ímyndarvanda náms. Krafan að mínu mati verður að vera að menntun nýtist manneskjunni í heild og markmiðið sé ekki minna en hamingja og velfarnaður. Einnig að menntun ýti undir færni einstaklingsins til að taka sjálfstæðar ákvarðanir með velferð sem flestra í huga. Hvaða eiginleikar, gáfur og hæfileikar þjóna lýðræðinu best og hvernig menntun nær því markmiði að hlúa að þeim eiginleikum?
Þessa spurningu eigum við að leggja til grundvallar frekari nýsköpun í menntakerfinu. Setja hjartað í að taka þeirri áskorun sem við stöndum frammi fyrir. Við erum að mennta fólk fyrir framtíðina. Menntagildi lista er sett fram í aðalnámskrá 2021 sem, meðal annars; að takast á við ófyrirséða framtíð, sjá ný mynstur, hugsa í lausnum og þroska persónulega tjáningu og smekk. Allt eru þetta gildi sem sárlega er kvartað yfir að nemendur búi yfir í of litlum mæli þegar þeir klára grunnskólann í dag. Að mínu mati þurfum við að stórefla list- verk- og tæknimenntun og passa upp á að féð skili sér í markmiðið sem þarf að vera skýrt.
Breytingarnar eru á fullu skriði, spurningin er ætlum við að gera þetta vel eða illa.
Framtíð okkar frábæru barna
Það eru mjög margir kennarar ásamt stuðningsfulltrúum að vinna mikilvægt starf í skólakerfinu á hverjum degi í skólum landsins. En hver er opinber stuðningur við frábærar hugmyndir eins og „skóli án aðgreiningar“ og „einstaklingsmiðað nám“? Staðreyndin er sú að þetta eru hugmyndir sem eru keyrðar í orði en ekki á borði. Hugmyndin gerir ráð fyrir góðum starfsskilyrðum kennara, hæfilegum fjölda nemenda á hvern starfsmann og sérmenntuðum stuðningsfulltrúum. Ekki ómenntuðum starfskrafti sem hjálpar kennara með of marga nemendur sem hafa ólíkar þarfir, inni í bekk. Hugmyndin gerir ráð fyrir þroskuðu teymi sem vinnur saman að velferð bekkjar, teymi sem býr yfir þeirri menntun, færni og reynslu sem nýtist ólíkum nemendahópi til menntunar og þroska. Þetta verðum við að raungera.
Svo eru margar aðrar spurningar, eins og hvert er hlutverk heimilisins í menntun? Hvernig tryggjum við jafnan rétt til náms, óháð staðsetningu og félagslegri stöðu? Er okkur alvara þegar við segjumst vilja mennta fólk til gagnrýninnar hugsunar og þátttöku í lýðræðinu?
Við Píratar erum með puttana á púlsinum þegar kemur að menntun en í kosningastefnu okkar má sjá menntastefnuna okkar og stefnur í 24 öðrum málum. Grunnsýn okkar á menntakerfið er að það búi nemendur og samfélagið allt undir þær breytingar sem framundan eru; eins og vegna loftslagsbreyting, sjálfvirknivæðingar og fjórðu iðbyltingarinnar. Það gerum við með því að auka sveigjanleika og frjálsræði í menntakerfinu, setja nemandann í fyrsta sæti, styðja við starfsfólk og auka áherslu á færni sem nýtist í sjálfvirknivæddu samfélagi á upplýsingaöld.
Menntun skapar hugsuninni aðsetur til að stuðla að samfélagslegum breytingum og tækifærum. Undirrituð biður því um byltingu, ekki smávægilegar breytingar hér og þar sem eru undirfjármagnaðar og ná litlum sem engum árangri.
Lind Draumland
Höfundur skipar 2. sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi