Í sveitarstjórnarkosningunum árið 2018 bauð E-listinn fram í Grímsnes- og Grafningshreppi í fyrsta skipti. Listinn náði fjórum fulltrúum kjörnum og hefur því setið í meirihluta í sveitarstjórn á þessu kjörtímabili. Á þessum fjórum árum hafa verkefnin verið mörg og fjölbreytt. Þar hafa umhverfismál, lýðheilsumál og skipulagsmál verið ofarlega á baugi, ásamt því að unnið hefur verið að því að efla innviði og almenna þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Skipulagsmálin hafa verið fyrirferðarmikil, en ásamt því að ljúka heildarendurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins þá hefur deiliskipulagið á Borg verið uppfært og hafin er vinna við deiliskipulag fyrir athafnasvæði sunnan við Borg.
Deiliskipulag fyrir yndisskóg ofan við byggðina á Borg var klárað og byrjað er að vinna að uppbyggingu á honum, en yndisskógurinn er samstarfsverkefni sveitarfélagsins, Kerhólsskóla og Skógræktarfélags Grímsneshrepps. Yndisskógurinn, sem er hugsaður sem svæði til yndisauka og heilsueflingar íbúa og annarra sem vilja njóta svæðisins, er sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi þar sem skógur er ræktaður frá grunni og skipulagður með tilliti til trjátegunda, hlutfalla og innviða.
Í september árið 2020 gerðist sveitarfélagið formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi, en meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Ýmis skref hafa verið stigin til þess að uppfylla þessi markmið, en ásamt því að koma á fót yndisskógi hefur göngustígakerfið í þéttbýlinu á Borg verið eflt til muna og ráðinn hefur verið Heilsu- og tómstundafulltrúi. Tómstundastyrkur sveitarfélagsins var hækkaður og honum breytt í lýðheilsu- og tómstundastyrk sem ætlaður er börnum á aldrinum 5-18 ára og eldri borgurum 67 ára og eldri, en þannig hefur hann nýst mörgum eldri borgurum vel í slitgigtarskóla sem starfræktur hefur verið í íþróttamiðstöðinni við góðar undirtektir.
Í upphafi kjörtímabilins var settur á laggirnar stýrihópur um sorpmál sem hafði það meginverkefni að bæta flokkun og stuðla að betri þjónustu og betra aðgengi í sorpmálum í sveitarfélaginu. Meðal þess sem hefur gerst í sorpmálunum síðan er að öllum íbúum voru skaffaðar tunnur undir lífrænan úrgang sem er nú safnað sérstaklega og unnin úr honum molta. Þá voru settar upp grenndarstöðvar fyrir heimilissorp á tíu stöðum í sveitarfélaginu sem nýtast sumarhúsaeigendum jafnt sem íbúum til þess að losa sig við heimilissorp á ábyrgan hátt í sjö mismunandi flokka. Þessar aðgerðir höfðu það í för með sér að endurvinnsluhlutfall heimilissorps í sveitarfélaginu margfaldaðist, og á sveitarfélagið nú í fyrsta skipti raunverulegan möguleika á því að ná þeim markmiðum sem sett eru fram af löggjafanum um hlutfall sorps sem fer í urðun eða brennslu.
Þetta eru aðeins nokkur af þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á kjörtímabilinu, en fólkið sem skipar E-listann á það allt sameiginlegt að hafa metnað og vilja til þess að vinna áfram að mikilvægum málum í þágu samfélagsins. Við vonumst til þess að íbúar sveitarfélagsins veiti okkur umboð til þess að halda áfram að gera gott samfélag enn betra.
Björn Kristinn Pálmarsson
2. sæti E-listans í Grímsnes- og Grafningshreppi