Nokkur orð um umhverfisgjöld og hrossatað

Á Alþingi liggur fyrir þingsályktunartillaga sem felur í sér að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er gert að meta hvort og þá með hvaða hætti unnt sé að veita sveitarfélögum heimild til að innheimta umhverfisgjöld og að horfa eigi sérstaklega til gjaldtöku tengda bílaeign.

Er tekið fram í tillögunni að á Íslandi sé umhverfisvitund skammt á veg komin og að gjaldtaka sveitarfélaga vegna bílaeignar þekkist varla nema þá helst í formi bílastæðagjalda og óbeint í formi gatnagerðargjalda. Sveitarfélögum landsins hafi þar með mistekist að stemma stigu við einkabílanotkun. En á sama tíma dregur ríkisstjórnin úr fjármagni til styrktar almenningssamgangna á landsbyggðinni samkvæmt samgönguáætlun 2020-2023 og fjármálaáætlun 2021-2025.

Það fer ekki á milli mála að tillagan ber ekki hagsmuni landsbyggðarinnar fyrir brjósti heldur eru forsendur miðaðar við höfuðborgarsvæðið þar sem mikil uppbygging í samgöngumálum hefur átt sér stað síðastliðin ár. Staðreyndin er hinsvegar sú að íbúar landsbyggðarinnar búa einfaldlega ekki við sömu samgöngukosti og höfuðborgarbúar, heldur við skerta samgöngumöguleika þar sem daglegt líf snýst um að reiða sig á einkabílinn og þurfa flestar fjölskyldur að reiða sig á tvo bíla.

Daglegt líf á landsbyggðinni er ekkert svo frábrugðið höfuðborgarlífinu að því leytinu til að íbúar landsbyggðarinnar þurfa, líkt og höfuðborgarbúar, að sækja vinnu, sækja ýmsa þjónustu og skutlast með börnin til og frá í tómstundir svo fátt annað sé nefnt. Ekki má gleyma því einnig að íbúar landsbyggðarinnar þurfa svo að sækja sérfræði læknaþjónustu til höfuðborgarsvæðisins.

Enginn vafi leikur á því að umrædd umhverfisgjöld séu í raun búsetutengd skattinnheimta sem feli í sér mismunun eftir búsetu, þar sem stór hluti þjóðarinnar sem er búsettur á landsbyggðinni þarf að reiða sig á einkabílinn þar sem ekki er um annarra kosta völ og ekki liggur fyrir hvorki fjármagn né vilji ríkisstjórnarinnar til uppbyggingar á almenningssamgöngum á landsbyggðinni. Það liggur því ljóst fyrir að umrædd tillaga sé sérstaklega íþyngjandi fyrir fjölmargar fjölskyldur landsins og hreint út sagt dragi úr hvata til einstaklinga og fjölskyldna um að flytjast búferlum út á landsbyggðina og þar með dragi úr jákvæðri byggðaþróun sem hefur m.a verið að eiga sér stað á Suðurlandi, þar sem mikil fólksfjölgun hefur verið nærsíðastliðin ár og enn fjölgar íbúum Suðurlands.

Það má heldur ekki gleymast í allri umræðunni að á Íslandi eru landfræðilegar sem og veðurfarslegar aðstæður í landinu með þeim hætti að fjölbreyttari samgöngumátar aðrir en einkabíllinn eru ekki ákjósanlegir né raunhæfir sér í lagi sökum þess að í mörgum tilfellum er um talsverðar vegalengdir að ræða.

Ríkisstjórninni hugnast kannski einna best að fólk á landsbyggðinni taki upp samgöngumáta fyrri tíma og fari í auknu mæli að nýta sér íslenska hestinn aftur sér til fararskjóta, en það myndi eflaust ekki koma neinum á óvart ef það kæmi þá til skoðunar að leggja sérstakt umhverfisgjald á hrossatað?

Umhverfismál eru íbúum landsbyggðarinnar að sjálfsögðu mikilvæg enda náttúran allt um kring ríkjandi. En er til of mikils að ætla að ríkisstjórnin einbeiti sér frekar að skynsamlegri leiðum í stað þess að grafa undan byggðaþróun allri landsbyggðinni til óheilla.

Heiðbrá Ólafsdóttir
Höfundur er lögfræðingur, kúabóndi og formaður Miðflokksdeildar Rangárþings

Fyrri greinTveir fluttir með þyrlu eftir bílveltu
Næsta greinStokkseyri og KFR unnu stórsigra