Allir helstu sérfræðingar hafa tekið sér góðan tíma í að ígrunda, reikna, teikna og hanna nýja Ölfusárbrú.
Niðurstaðan er glæsileg. En ekki nóg með að brúin verði glæsileg, þá er hún umfram allt nauðsynleg. Nauðsynleg fyrir íbúa Suðurlands, alla þá sem eiga leið um svæðið og ekki síst fyrir þá fjölmörgu ferðamenn sem daglega nota brúna. Umferðarþungi hefur aukist verulega og það er löngu orðið ljóst að verkefnið þolir ekki lengri bið. Ölfusárbrúin er hluti af grunnkerfi landsins og tengir atvinnusvæðið okkar við höfuðborgarsvæðið. Þetta snýst ekki bara um brú, þetta snýst um öryggi.
Umferðartafir um Ölfusárbrú eru ekki lengur einungis á háannatímum þær eru orðnar daglegt brauð og þær ógna öryggi okkar. Viðbragðstími viðbragðsaðila lengist óhjákvæmilega þegar allt er stopp í báðar áttir á brúnni. Við erum ekki að tala um þægindi við erum að tala um öryggi og grunnkerfið okkar sem tengir saman Suðurland og höfuðborgarsvæðið.
Við Íslendingar erum góðir að bregðast við og við slíkar aðstæður leggjast allir á eitt. Við erum samstíga þegar á reynir og styðjum hvort annað þegar eitthvað bjátar á. Nú er svo komið að verkefnið er brýnt. Við þurfum að þétta raðirnar og standa saman, sameinast og sammælast um nauðsyn þess að hætta að rífast um brúnna og hefjast handa við framkvæmdir við Ölfusárbrú. Forgangsröðum rétt og setjum öryggi íbúa á oddinn, við höfum ekki tíma til að bíða.
Breytum þessu!
Sandra Sigurðardóttir
Bæjarfulltrúi Hveragerðisbæjar
Skipar 2. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi