Öflug uppbygging HSU og heilsugæslna í forgang

Sunnlendingum hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum. Aukin ferðamennska hefur sett sitt mark á svæðið og ekkert bendir til annars en að íbúafjölgun haldi áfram. Það er því ljóst að efla þarf Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) til að tryggja að hún geti mætt þessari auknu þörf svæðisins. Það er nauðsynlegt að hugsa það til lengri tíma en einungis næstu fjögurra ára, eða út næsta fjárhagsár. Við verðum að innleiða langtímahugsun í kerfin okkar, annað er sóun á tíma, mannauði, fjármunum og tækifærum.

Við lifum á tímum örrar tækniþróunar þar sem nýsköpun er lykilatriði til að mæta breyttum þörfum í nútímasamfélagi. Hvernig ætlum við að tryggja að HSU þjóni íbúum Suðurlands á þann hátt sem þeir þurfa og eiga rétt á? Viljum við að grunn- og sérfræðiþjónusta sé aðgengileg í okkar heimabyggð eða erum við sátt við að þurfa að sækja þá þjónustu á höfuðborgarsvæðið? Þetta eru spurningar sem nauðsynlegt er að svara til að hafa skýra heildarsýn til lengri tíma.

Það er ljóst að við getum ekki lengur byggt á skammtímalausnum eða horft til eins kjörtímabils í einu. Nú er nóg komið af plástrum og pjötlum. Heilbrigðisþjónusta á að vera æðri allri pólitík. Við þurfum að gera áætlanir til framtíðar sem stuðla að stöðugri og markvissri uppbyggingu. Það gerist ekki ef fagfólkið okkar er sífellt í krísustjórnun í kringumstæðum sem það var löngu búið að sjá fyrir og benda á, án viðbragða og viðeigandi aðgerða frá pólitíkinni.

Fyrir tólf árum var ljóst að stækka þyrfti HSU. Í dag, 12 árum síðar, erum við enn á byrjunarreit. Það er ekki boðlegt. Það er samfélagsleg skylda okkar að bregðast við þessari stöðu, horfa til framtíðar og fylgja eftir áætlunum sem tryggja þjónustuna. Fjármagnið er til staðar, en það þarf að nýta það á réttum stöðum og með skynsamlegri hætti en hingað til.

Fjórði stærsti útgjaldaliður ríkisins eru vaxtagjöld. Það vekur upp spurningar um hvort við getum hagrætt í rekstrinum, fækkað ráðuneytum, selt ríkiseignir, borgað niður skuldir og þannig nýtt fjármagn sem nú fer í vaxtagjöld til heilbrigðismála. Þetta myndi skila sér í betri heilbrigðisþjónustu og öflugra kerfi til framtíðar.

Við verðum að taka framtíðina föstum tökum. Breytum því hvernig við hugsum um heilbrigðisþjónustuna, mörkum skýra framtíðarsýn og látum hana verða að veruleika. HSU og heilbrigðiskerfið í heild sinni á það skilið.

Breytum þessu!

Sandra Sigurðardóttir
Bæjarfulltrúi Hveragerðisbæjar
Skipar 2. Sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi

Fyrri greinInga Sæland og þú
Næsta greinHörkutólið frá Hellu