Bæjarmálafélagið Okkar Hveragerði bauð fram í annað skipti í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru 14. maí 2022 og hlaut 40% atkvæða og þrjá af sjö bæjarfulltrúum. Okkar Hveragerði er eftir kosningarnar stærsta stjórnmálaaflið í Hveragerði.
Í reglum Hveragerðisbæjar um framlög til stjórnmálasamtaka er bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga er kveðið á um að stjórnmálasamtök sem hljóta styrki frá bænum skuli birta upplýsingar um kostnað við framboð til sveitarstjórnar. Öll framboð sem hljóta að minnsta kosti einn fulltrúa kjörinn í sveitarstjórn eða 5% atkvæði skulu njóta styrks til starfsemi sinnar.
Til að mæta kostnaði við framboðið safnaði Okkar Hveragerði styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Samtals safnaði Okkar Hveragerði kr. 570.000 í styrki, þar af voru styrkir frá fyrirtækjum kr. 510.000 og frá einstaklingum kr. 60.000. Auk þess fékkst styrkur frá Hveragerðisbæ að upphæð kr. 280.000. Styrkur Hveragerðisbæjar var skv. reglum bæjarins um styrki til stjórnmálasamtaka og var hann greiddur eftir kosningar og miðaðist upphæðin við árangur í kosningunum. Hæsti styrkur einstaklings var kr. 20.000 og hæsti styrkur fyrirtækis var kr. 200.000. Auk þeirra styrkja sem að framan eru taldir átti Okkar Hveragerði kr. 552.534 á bankareikningi um síðustu áramót og var sú fjárhæð jafnframt nýtt til að mæta kostnaði við framboðið. Sú fjárhæð sem Okkar Hveragerði átti var að stærstum hluta tilkomin vegna uppsafnaðra styrkja sem Hveragerðisbær greiðir öllum framboðum árlega sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn.
Samtals var kostnaður við framboð Okkar Hveragerðis í sveitarstjórnarkosningum árið 2022 kr. 1.436.466. Kostnaður var einkum vegna kynningarefnis, merkinga á kosningaskrifstofu, leigu á húsnæði, viðburða og veitinga á kosningaskrifstofu. Þá er rétt að nefna að fjöldi einstaklinga lagði á sig mikla vinnu í sjálfboðaliðastarfi fyrir framboðið sem ekki síst skilaði glæsilegum árangri þann 14. maí sl. Þeim er öllum þakkað fyrir óeigingjarnt og frábært starf.
Sandra Sigurðardóttir
Njörður Sigurðsson
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis