Nú eru nokkrir dagar til kosninga og margir kostir eru í boði, um 11 framboð gefa kost á sér í suðurkjördæmi og stefnumálin eru af ýmsum toga.
Þrátt fyrir að framboðin eigi ýmislegt sameiginlegt þá eru þó ákveðin mál sem greinir þau að. Það kann að virðast flókið fyrir ungt fólk að kynna sér stefnuskrá þeirra fjölmörgu framboða sem til staðar eru. Við viljum koma hér inn á nokkur atriði sem eru mikilvæg fyrir ungt fólk að hafa í huga þegar stigið er inn í kjörklefann þann 27. apríl nk.
Flest þessara framboða hafa í stefnuskrá sinni einhverjar lausnir sem ætlað er að taka á skuldavanda heimilanna. Þrátt fyrir samhug flokkanna til að taka á skuldavanda heimilanna þá eru áherslurnar mismunandi. Þegar þetta stóra verkefni er haft í huga verða lausnir flokkanna að vera raunhæfar og verða að komast til framkvæmda strax eftir kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þessu efni sett fram lausnir sem eru í senn raunhæfar og geta komist til framkvæmda strax í upphafi komandi kjörtímabils.
Lausn Sjálfstæðisflokksins felst meðal annars í því að veita heimilum skattaafslátt sem færður verður beint inn á höfuðstól húsnæðislána. Þessi skattaafsláttur getur numið allt að 40.000 kr. á mánuði sem á 4 árum getur lækkað húsnæðislán um allt að 2 milljónum. Þess má einnig geta að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í stefnuskrá sinni sambærilega leið fyrir ungt fólk sem hyggst kaupa sína fyrstu íbúð. Með þessu vill flokkurinn koma til móts við unga fólkið sem sem hefur hug á að komast af erfiðum og þungum leigumarkaði í öruggt húsaskjól. Þetta verður gert með svipuðum hætti og með húsnæðislánin, veittur verður ákveðinn skattaafsláttur sem lagður verður inn á sérstakan sparnaðarreikning ætlaðan til íbúðakaupa.
Í umræðunni um lausnir á skuldavanda heimilinna í landinu má þó ekki gleyma mikilvægi atvinnulífsins. Það er nauðsynlegt að þeir flokkar sem koma til með að stýra landinu á komandi kjörtímabili verði í góðu sambandi við atvinnulífið og hafi vilja til að vinna með því en ekki á móti því. Það er nauðsynlegt öllum kjósendum í landinu að atvinnulífið verði tryggt og unnt verði að nýta þau tækifæri sem til staðar eru. Þetta verður meðal annars gert með skynsamri nýtingu auðlinda, einfaldara skattkerfi og meiri skilning af hálfu ríkisvaldsins. Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem ætlar sér að styrkja atvinnulífið í landinu og með sterku atvinnulífi styrkist hagur ungs fólks og fjölskyldna í landinu.
Það er mikilvægt að ungt fólk kynni sér vel þau málefni sem fyrir liggja og taki með virkum hætti þátt í umræðunni og láti sig málin varða. Unga fólkið mun lifa við þær ákvarðanir sem teknar eru á næstu árum og verður því að sýna áhuga á mótun þeirrar stefnu sem lögð er á komandi kjörtímabilum. Við viljum hvetja ungt fólk og ykkur öll til að taka virkan þátt í umræðunni og kynna ykkur stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Gunnarsdóttir
Lögfræðingur og formaður Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ.
Ólafur Hannesson
Stjórnmálafræðingur og formaður Kjördæmissamtaka ungra sjálfstæðismanna í suðurkjördæmi.