Í síðustu sveitarstjórnarkosningum tjáði meirihluti Sjálfstæðismanna skoðun sína um opið bókhald. Orðrétt hljóðaði það svo: „Við viljum auka gagnsæi í stjórnsýslunni og hafa bókhaldið opið og aðgengilegt á heimasíðu sveitarfélagsins. Það er mikilvægt að íbúar geti leitað sér upplýsinga á einfaldan hátt. D-listinn í Árborg.“
Á bæjarstjórnarfundi miðvikudaginn 22. mars var lögð fram tillaga að fjárhagslegum markmiðum sveitarfélagsins Árborgar. Í fjárhagslegum markmiðum er vörðuð 10 ára fjármálaáætlun sem listar upp framtíðarsýn bæjarstjórnar. Fjárhagsáætlunin er unnin með KPMG, Innviðaráðuneytinu og að hluta í samvinnu með okkur í Framsókn, Áfram Árborg og Samfylkingu. Öll bæjarstjórnin situr fjárhagsfundi, því mjög mikilvægt er að einhugur ríki um þær aðgerðir sem ráðist er í. Við erum að tala um sparnað og tekjuaukandi aðgerðir til að brúa bil í rekstri Árborgar á núlíðandi ári og á komandi árum. Sveitarfélagið er ekki sjálfbært í rekstri og því þarf að endurskipuleggja.
Við í Framsókn höfum ítrekað varað við lausafjárvanda sveitarfélagsins og hvatt meirihlutann til að gæta að lausafé bæjarsjóðs. Meirihlutanum hefur ekki tekist vel til í að lausafjármagna bæjarsjóð og eru ytri aðstæður einnig mjög krefjandi. Þetta eru verkefni okkar í bæjarstjórn. Vinna að lausnum og koma í veg fyrir misráðnar ákvarðanir. Það er eðlilegt að íbúar hafi áhyggjur af stöðu sveitarfélagsins.
Sparnarðaraðgerðir hitta okkur öll misjafnlega fyrir. Ýmist í formi þjónustu sem við greiðum fyrir með sköttum okkar, eða í þjónustu sem sveitarfélaginu er skylt að sinna. Einnig eru starfsmenn sveitarfélagsins margir. Það sem við eigum sameiginlegt er að sýn okkar á fjármál sveitarfélagsins er takmörkuð en sjálfstæðismenn lofuðu opinni stjórnsýslu og opnum fjármálum kæmust þau til valda. Nú hefur hreinn meirihluti þeirra starfað í 10 mánuði og ekkert bólar á opnu bókhaldi. Hversvegna?
Arnar Freyr Ólafsson
Oddviti Framsóknar í Árborg