Þegar heilbrigðismál okkar Sunnlendinga eru skoðuð má glöggt sjá að hefjast þarf handa við endurskoðun þjónustunnar sem er í boði á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Taka ber fram að sú þjónusta sem boðið er uppá um þessar mundir er með ágætum og það er ljóst að starfsfólkið sem þar vinnur skilar góðu starfi.
Talsverður skortur er á alhliða þjónustu á Suðurlandi sem er fjölmennasti fjórðungur landsins. Sem dæmi má nefna að á Suðurlandi eru fjölmörg frístundahús sem eru notuð allt árið og flestir ferðamenn sækja Suðurland heim á ferð sinni um landið. Íbúafjöldi svæðisins segir því ekki alla söguna. Fjölgun í Sveitarfélaginu Árborg er fyrirsjáanleg og einnig er mikil uppbygging í öðrum sveitarfélögum í nágrenninu. Fjölgun íbúa á svæðinu má að öllum líkindum telja í þúsundum á hverju ári næstu árin.
Stækkun HSU er öryggisatriði
Fjarlægðir og mínútur geta skipt sköpum í bráðatilfellum. Fjallvegir geta lokast og þá þarf að kalla til þyrluþjónustu þegar flytja þarf sjúklinga til Reykjavíkur. Hvað ef rúta lendir utan vegar og fjöldi fólks slasast? Heiðin lokuð og rými HSU fullnýtt vegna fjölda íbúa á svæðinu? Í slíkum aðsæðum er ljóst að mikill vandi er í uppsiglingu. Því er nauðsynlegt að hefja viðræður við ríkið um uppbyggingu á HSU til þess að mæta þeirri þörf sem er fyrirsjáanleg á komandi árum.
Sköpum hálaunastörf
Ef starfsemi HSU er útvíkkuð og fjölgun verður á vel menntuðu heilbrigðisstarfsfólki mun það hafa jákvæð áhrif á tekjustofn Árborgar. Líkur eru á að sérfræðingar sem starfi á HSU vilji setjast hér að. Með útvíkkun á starfsemi HSU mætti einnig auka samstarf við Háskóla Íslands sem gæfi þá möguleika á menntun í heimabyggð. Ef starfsemi HSU er útvíkkuð hefði það margfeldisáhrif á okkar góða samfélag.
Arnar Freyr Ólafsson,
oddviti Framsóknar í Árborg.