Undanfarnir mánuðir hafa verið líflegir í pólitísku umróti í Sveitarfélaginu Ölfusi.
Fyrir þá sem til þekkja eru það þó ekki einungis síðustu mánuðir, heldur kjörtímabilið allt undir stjórn meirihluta sjálfstæðismanna.
Í mörgum stórum ákvarðanatökum hafa vinnubrögð oftast verið með þeim hætti að fyrrverandi bæjarstjóri hefur undirbúið mál upp á eigin spýtur og síðan fengið hina sjálfstæðismennina í bæjarstjórn til að samþykkja rétt fyrir bæjarstjórnarfundi. Lang oftast hefur minnihlutinn fengið upplýsingar um málin tveimur sólarhringum fyrir bæjarstjórnafundi. Hvað eftir annað hafa ákvarðanir verið teknar, samningar undirritaðir, kynntir í fjölmiðlum og að lokum samþykktir í bæjarstjórn. Afar sérkennilegir starfshættir og líkjast mun frekar einræði en lýðræði.
Verst er að sumar af þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið með þessum hætti hafa orðið afdrifaríkar fyrir sveitarfélagið. Þær hafa verið illa ígrundaðar og óskynsamlegar. Má þar m.a. nefna ákveðna viljayfirlýsingu fv. bæjarstjóra f.h. sveitarfélagsins við fyrirtækið Arctus, vegna svokallaðra áltæknigarða, sem aldrei var rædd í bæjarstjórn og batt hendur manna til samninga við aðra hugsanlega fjárfesta í eitt ár.
Má þar einnig nefna eina afdrifaríkustu ákvörðun sem tekin hefur verið fyrir hönd sveitarfélagsins um margra ára skeið, að ganga til samninga við eignarhaldfélagið Fasteign ehf. um uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem við hefðum án efa átt að fjármagna sjálf. Meira að segja ráðlagði endurskoðunarfyrirtæki sveitarfélagsins meirihlutanum að gera ekki samning við fasteignafélagið um uppbygginguna vegna þess að hagkvæmara væri að kosta þetta með lántökum sveitarfélagsins sjálfs. En meirihlutinn virti þá ráðgjöf að vettugi.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skulu allar stærri skuldbindingar sveitarstjórnar lagðar fyrir fund og staðfestar eður eigi og þá í kjölfar þess gengið til samninga um málin. Stjórnsýsla meirihluta þessa kjörtímabils og þá sérstaklega fv. bæjarstjóra hefur miðast við að hlutirnir skuli samþykktir eftirá. Það var þannig með söluna á Hliðarendanum, uppbyggingu íþróttamannvirkjanna og átti einnig að vera þannig með viðbyggingu og endurbætur leikskólans Bergheima, sem leiddi þó til þess að klofningur kom upp í röðum sjálfstæðismanna, enda farið að styttast í kosningar og ekki mátti þetta líta þannig út að fv. bæjarstjóri réði alltaf öllu.
Svo aðeins sé vikið nánar að þessu leikskólamáli, þá höfðu fv. bæjarstjóri, formaður fræðslu- og uppeldisnefndar ásamt leikskólastjóra og nokkrum starfsmönnum leikskólans unnið undanfarin tæp tvö ár að undirbúningi að tillögum um úrbætur í leikskólamálum í Þorlákshöfn. Nauðsynlegt mál og allir sáttir við að farið yrði í úrbætur í þessum málaflokki. Á miðju ári 2009 og aftur síðla hausts þá spurðu bæjarstjórnarfulltrúar um gang mála og talaði fv. bæjarstjóri þá um að brátt kæmi að kynningu málsins. Það gerist þó ekki fyrr en í enda janúar 2010 að formleg kynning á gangi mála er haldin fyrir bæjarstjórn og kemur þá í ljós að hönnun og verkfræðivinna við hugmyndina er á loka stigi og búið að eyða u.þ.b. 30 milljónum í verkið, sem er fjórföld sú upphæð sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagáætlun.
Minnihlutanum í bæjarstjórn var brugðið við þessa kynningu og væntanleg einnig hluta meirihlutans og töldu menn því vænlegast að fresta lokavinnu verkefnisins vegna þess að hér er um afar dýra framkvæmd að ræða og stutt í að ný bæjarstjórn taki við. Á þetta vildi fv. bæjarstjóri og annar liðsmaður meirihlutans ekki fallast og fóru því tveir liðsmenn sjálfstæðismeirihlutans fram á stuðning minnihlutans við að segja bæjarstjóra upp. Á grundvelli starfhátta og ákvarðanatöku meirihlutans í mörgum málum þetta kjörtímabil og einnig á grundvelli skoðunar minnihlutans um að fresta leikskólamálinu fram til næsta kjörtímabils þá studdi hann uppsögn bæjarstjóra. Það skal þó ítrekað, að þó að bæjarstjóra hafi verið sagt upp með stuðningi minnihlutans þá eru sjálfstæðismenn allir ábyrgir fyrir þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið á þessu kjörtímabili.
Ársreikningur sveitarfélagsins 2009 sýnir glögglega, að óskynsamlegar fjárhagslegar ákvarðanir hafa verið teknar á undanförnum árum. Skuldir sveitarfélagins hafa stór-aukist, veltufjárhlutfall er neikvætt og lausafjárstaða er afar döpur þrátt fyrir að tekið hafi verið 120 milljón króna lán s.l. haust til að laga yfirdrátt sveitarsjóðs.
Þetta er á ábyrgð meirihluta sjálfstæðismanna s.l. fjögur ár og því spyr maður: Vilja menn meirihluta sjálfstæðismanna eða viðlíka einræðistakta sem viðhafðir hafa verið í stjórn sveitarfélagsins aftur næsta kjörtímabil?
Páll Stefánsson, bæjarfulltrúi B-listans.