Ragnar Brynjólfs: Heilsársmarkaður á Selfossi?

Tillögu Sigtúns þróunarfélags um skipulag miðjureitsins á Selfossi ber að fagna og hana þarf að skoða vel.

Atvinnustarfsemi sem nær að blómstra innan sveitarfélagsins er íbúum í hag og þjónar þeim, svo lengi sem hún hvorki mengar eða skerðir lífsgæði. Því er mikilvægt fyrir okkur íbúana að líta með jákvæðum augum á hugmyndirnar, ræða þær og reyna að sjá hvaða möguleikar felast í þeim fyrir sveitarfélagið og nærsveitir.

Í þessu tilfelli er einn aðili sem sér um skipulagningu, byggingu, fjármögnun og rekstur. Það eykur líkur á að framkvæmdum verði lokið, hús rísi samkvæmt áætlun og myndi fyrirhugaða heild. En því miður er hið gagnstæða stundum raunin þegar skipulag er annars vegar.

Athugasemdir hafa komið fram, sem og áhyggjur um að nýr miðbær muni draga athygli frá Eyrarbakka og Austur-Meðalholtum. En gæti ný miðja á Selfossi ekki allt eins haft þau áhrif að virka sem fyrsta stopp sem vekur áhuga ferðamanna og beinir þeim til hinna staðanna frekar en að fæla frá þeim? Sama má segja um aðra þjónustu, til dæmis veitingahús. Ef umferð eykst mun gestum húsanna sem fyrir eru ekki allt eins fjölga? Getur hugsast að ef vel gengur með þetta verkefni og það skilar arði að þróunarfélagið eða einhver annar aðili haldi áfram á svipaðri braut og endurbyggi gömlu Vesturbúð á Eyrarbakka? Þá þarf að huga að því að deiliskipuleggja svæðið þar sem hún stóð með þann möguleika í huga að hún rísi aftur. Ef miðjan verður að veruleika mun hún þá ekki frekar virka sem hluti af heild þar sem hvað styður annað, Eyrarbakki, Austur-Meðalholt og nýr miðbær Selfoss? Það er stutt á milli þessara staða í nútíma skilningi.

Bent hefur verið á að miðbær eigi fyrst og fremst að þjóna íbúum bæjarins, vera samnefnari þeirra og samfélag. Rétt er það en einnig verður að hafa í huga að ýtrustu hagsmunir bæjarbúa og gesta fara ekki alltaf saman og að þéttbýli myndast gjarnan og þrífst vegna þess að þangað sækir fjöldi fólks verslun, þjónustu og menningu. Það er því eðlilegt að taka tillit til síðarnefnda hópsins því hluti hans lítur gjarnan á þéttbýlið sem „sinn“ bæ í einum eða öðrum skilningi sérstaklega þeir sem koma þangað oft. Hér eins og oft áður þarf að finna hinn gullna meðalveg.

Líklega þarf ekki mikla breytingu á tillögu þróunarfélagsins til að koma til móts við þessi skilyrði. Ein hugmynd um miðjureitinn eða jaðarbyggð hans er að þar gæti verið heilsársmarkaður innandyra. Markaðshúsið yrði að vera nægjanlega stórt til að rúma kaffihús, svið fyrir ýmsa viðburði, aðstöðu fyrir myndlistarsýningar auk aðstöðu fyrir sölubása. Slíkur staður myndi ekki einungis þjóna ferðamönnum heldur yrði hann að líkindum vel sóttur af Árborgarbúum og nærsveitungum. Þeir sem komið hafa í Kolaportið vita að þar er oft þröngt og núna er verið að þrengja meira að með lokun bílastæða. Það sem ég hef helst saknað í Kolaportinu er þessi menningarlegi vinkill. Að öðru leyti er það lifandi samfélag þar sem gaman er að koma, ganga um og fá sér hressingu þrátt fyrir óvistleg húsakynni, aðgengisvandamál og fá bílastæði.

Um nokkurt skeið hefur verið rætt um að stofna safn um sögu mjólkuriðnaðarins á Selfossi og hugsanlega væri hægt að sameina það þessari hugmynd. Nú veit ég ekki hvort miðjureiturinn er nógu stór til að bera endurbyggingu gamla mjólkurbúsins í viðbót við það sem fyrir verður en ef svo er þá væri þar hugsanlega komið hús sem gæti hýst sögu Flóaáveitunnar og mjólkuriðnaðarins sem spratt upp hér á Selfossi í kjölfar hennar. Þar með væri kominn traust söguleg tenging við nánasta umhverfi.

Vegna aukins fjölda ferðamanna þyrfti svo væntanlega að skipuleggja svæði fyrir rútustæði og önnur bílastæði því miðjutillagan felur slíkt ekki í sér, a.m.k. ekki í sinni fyrstu mynd sem kynnt hefur verið. Gera verður ráð fyrir bílastæðum og þau mega ekki vera of langt frá miðjureitnum. Hugsanlega má leysa málið með bílastæðahúsi?

Ragnar Geir Brynjólfsson,
fulltrúi Framsóknarflokksins í skipulags- og byggingarnefnd Svf. Árborgar

Fyrri greinSkyggnir styrkir hjálparstarf í Nepal
Næsta grein„Rétturinn til letinnar“ í fyrsta sinn á íslensku