Sú skoðun var nýlega sett fram að Selfoss henti ekki sem svið fyrir minnisvarða um kaþólska helgistaði á miðöldum.
En ef horft er á staðreyndir þá er Selfoss þannig í sveit settur að í aðeins um 7,5 km fjarlægð og um 10 km akstursfjarlægð frá Selfossi var annar helsti helgi- og pílagrímastaður miðalda á Íslandi í Kaldaðarnesi. Sjá t.d. hér:
„Kaldaðarnes varð snemma kirkjustaður, helgaður heilögum krossi. Kirkjan átti kross, sem mikill átrúnaður hvíldi á. Vegna þessa kross var ævinlega margmenni á staðnum, þó flest á krossmessum vor og haust. Fólkið kom með gjafir með sér sem áheit. Sagnir segja frá því, að pílagrímar hafi flykkzt 50 saman út í ferjuna í einu og hún hafi sokkið í miðri á og allir farizt. Helgigöngur úr fjarlægum byggðarlögum voru skipulagðar til Kaldaðarness. Oft dugði fyrir þessa ferðamenn að sjá heim að staðnum, t.d. af Kambabrún, til að fá bót meina. Margir fóru upp á Selvogsheiði, á Kvennagönguhóla, til að sjá heim að staðnum.” [1]
Selfoss gæti því verið mögulegur staður fyrir minnisvarða um krossinn helga í Kaldaðarnesi ef Kaldaðarnes sjálft kemur ekki til greina. Nú þegar er t.d. búið að koma upp safni og minnisvarða um Kaldaðarnesflugvöll við Selfossflugvöll og ég man ekki eftir athugasemdum í sambandi við það staðarval. Það væri þó líklega viðeigandi að minnisvarðinn um helgistaðinn forna yrði í formi kross, hugsanlega innanhúss.
Viðhorf til pílagrímsferða hafa tekið stakkaskiptum í jákvæða átt frá því sem áður var og hin síðari ár hefur gætt aukins áhuga á fornum pílagrímastöðum- og göngum. Nefna má göngur í Skálholt og við Mývatn [2]. Erlendis er áhugi á göngum til Santiago de Compostela eins og sjá mátti í sjónvarpsmynd sem gerð var um göngu Thors Vilhjálmssonar þangað. Þar eru gefin út pílagrímavegabréf sem eru stimpluð á leiðinni.
Pílagrímagöngur þurfa ekki eingöngu að vera í trúarlegum tilgangi, sögulegur eða menningarlegur áhugi er nægur. Einnig löngun til að ganga úti í náttúrunni og njóta kyrrðar, friðar og einveru í fögru umhverfi. Þátttakendur í pílagrímagöngum eru gjarnan á miðjum aldri eða eldri. Þetta er að líkindum fólk sem kýs fremur að neyta menningar en varnings en þarf að sjálfsögðu viðurgjörning og aðstöðu á leiðinni.
Hinn helsti pílagrímastaður miðalda hérlendur var svo Skálholt. Vegna nálægðar við Kaldaðarnes þá ætti Selfoss að geta þjónað sem endapunktur á göngu til eða frá Skálholti sér í lagi ef krossins helga verður minnst á Selfossi.
Mörgum mun einnig vera kunnugt um að á Úlfljótsvatni stendur nú þegar stór kross blessaður af Jóhannesi Páli II páfa sem komið var fyrir árið 1989. Úlfljótsvatn, Selfoss og Skálholt væri svo hugsanlega hægt að tengja saman með gönguleiðum. Ef áform kaþólsku kirkjunnar um að koma á fót munkaklaustri á Úlfljótsvatni ganga eftir þá mun sú hugmynd styrkjast enn frekar.
Ragnar Geir Brynjólfsson
[1] Tilvitnun: http://nat.is/travelguide/ahugav_st_kaldadarnes.htm
[2] Sjá t.d. http://www.pilagrimar.is/ og http://skalholt.is/pilagrimsgongur/