Við sem skipum lista Framsóknar í Árborg villjum jafna möguleika barna og ungmenna til að stunda frístundastarf og hækka frístundastyrki í 25 þúsund.
Við viljum einnig hækka endurgreiðslur til þeirra sem nota þjónustu dagforeldra þannig að sama gjald verði fyrir barn hjá dagforeldri og á leikskóla. Ennfremur viljum við auka virkni einstaklinga sem þiggja fjárhagsaðstoð, fjölga dvalar- og hjúkrunarrýmum í sveitarfélaginu, bæta aðstöðu fyrir félagsstarf eldri borgara og fjölga búsetuúrræðum fatlaðs fólks og atvinnutækifærum þeirra.
Skólamál og heimanám
Við viljum styrkja innviði skólakerfisins með áherslu á árangur og gefa börnum í efstu bekkjum grunnskóla kost á list- og verknámi. Í skólamálum er athugandi að horfa á vísbendingar um aðferðir sem bera góðan árangur en þær eru t.d. áhersla á hljóðlæsi, heimanám og söng. Sumir segja að foreldrar eigi ekki að þurfa að aðstoða við heimanám barna. Þau komi heim úrvinda af þreytu og foreldrarnir sömuleiðis. Því er athugandi að skipuleggja heimanám þannig að það íþyngi ekki heldur gefi tækifæri til dálítillar samveru. Aðstæður fólks eru mismunandi en í flestum tilfellum eru tvö til þrjú börn á fjölskyldu og ef frístundaiðja er miðuð við eitt viðfangsefni fyrir hvert barn ætti að vera hægt að finna nokkrar mínútur fyrir heimanám öðru hverju. Það gefur foreldrunum tækifæri til samveru við börnin auk þess að fá innsýn í námið.
Framsókn styður mannréttindi
Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða skoðunum. Við munum verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs og vinna gegn fordómum. Góð sjálfsmynd er forsenda þroska og lífshamingju. Slík sjálfsmynd hefur besta möguleika til að þroskast þar sem fjölbreytt trúar- eða lífsskoðanastarf þrífst sem og mannúðar-, menningar-, og tómstundastarf. Jákvæðni, umburðarlyndi, gagnkvæm virðing og samvinna þjóðfélagshópa er mikilvæg fyrir samfélagið.
Ragnar Geir Brynjólfsson, skipar 3. sætið á B-listanum í Árborg.