Fyrir mig einn ég ekki byggi,
afspring heldur og sveitunginn,
eftir mig vil ég verkin liggi,
við dæmin örvast seinni menn;
ég brúa, girði, götu ryð,
grönnunum til þess veiti lið.
Svo hljóðar eitt erindi í Búnaðarbálki Eggerts Ólafssonar sem ortur er líklega um 190 árum áður en sjálfbær þróun var skilgreind árið 1987 í skýrslu Sameinuðu þjóðanna: „Mannleg starfsemi sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“
Grein átta í stefnuskrá Framsóknarflokksins er einnig um þetta: „Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.“
Vísbendingum fjölgar um að lífshættir okkar kynslóðar séu ósjálfbærir og við ættum að haga lífinu með þeim hætti að búa betur í haginn fyrir komandi kynslóðir. Sjálfbærni felur í sér að við eigum að skila efnahag og menningu af okkur í viðunandi ástandi – ekki einungis landinu og jörðinni.
A-hluti sveitarsjóðs Árborgar hefur verið rekinn með tapi allt frá 2007 og árið 2013 var tapið um 36 milljónir. Við eigum að taka höndum saman og stöðva tapið. Sennilega vantar viljann ekki hjá neinum en greinilegt er að vandinn er viðvarandi og verður að líkindum ekki leystur nema allir leggist á árarnar.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 3. maður á lista hjá Framsókn í Svf. Árborg