Í aðdraganda kosninga kynna hin ýmsu framboð og frambjóðendur áherslur sínar og stefnumál fyrir komandi kjörtímabil. Það er bæði eðlilegt og er sjálfsögð krafa á framboð í lýðræðislegum kosningum að þau geri svo. Einnig er það eðlilegt að þau hin sömu geri athugasemdir við störf og stefnu fyrri bæjarstjórna og segi frá því hvernig þau hefðu gert öðruvísi eða betur, að þeirra mati. Í Svf. Árborg hljóma nú helstu slagararnir um ábyrga fjármálastjórnun, forgangsröðun framkvæmda og einhverjir boða fjölgun tekjustofna sveitarfélagsins.
Tekjustofnar sveitarfélaga eru bundnir í lög
Um síðastnefnda slagarann, tekjustofnanna, er það að segja að um þá gilda ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum. Samkvæmt þeim lögum eru tekjustofnar sveitarfélaga útsvar, fasteignaskattur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en auk þess mega sveitarfélögin innheimta ýmsar þjónustutekjur og tekjur af eigin stofnunum og fyrirtækjum.
Sveitarfélög mega ekki og geta ekki aukið við tekjustofna sína umfram þá tekjustofna sem eru bundin í lög og reglugerðir, það er á hendi löggjafans (Alþingis) og framkvæmdavaldsins (ráðherra) að ákveða þá.
Sennilegast eru þeir sem tala með þessum hætti, oftast óreyndir frambjóðendur, að misskilja tekjustofna sveitarfélaga og hvernig þeir eru uppbyggðir. Ég tel að þeir frambjóðendur séu frekar að meina að auka þurfi við tekjur sveitarfélaga til að mæta útgjöldum þeirra. Undir það get ég tekið. Það hefur nefnilega sem dæmi oftar en ekki, ónægt fé fylgt þeim verkefnum sem ríkisvaldið hefur sett lög á sveitarfélög um að þeim beri að taka að sér. Og því miður er það staðreynd að alltof margir ráðherrar hafa á undanförnum árum og áratugum slegið sig til riddara á kostnað sveitarfélaganna. Má í því sambandi nefna yfirfærslu grunnskólans á sínum tíma, einnig yfirfærsluna á málefnum fatlaðra yfir til sveitarfélaga og nú síðast lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og tengd lög. Síðastnefnda verkefnið sem er viðamikið og fallegt á pappír, hefur nú þegar kostað sveitarfélögin umtalsverða fjármuni án þess að fé fylgi. Innleiðing þeirra laga hefur sýnt sig strax í upphafi að vera flókið verkefni að leysa og of margir starfsmenn sveitarfélaganna hringinn í kringum landið, dýrir sérfræðingar og launaðir ráðgjafar landshluta hafa verið að klóra sér í kollinum yfir því hvernig beri að leysa og koma til framkvæmdar. Það er fyrirséð að þetta verkefni eins fallegt og nauðsynlegt það nú er fyrir farsæld barnanna okkar, er undir fjármagnað sem þýðir að allur umframkostnaðurinn af verkefninu og innleiðingu þess lendir á sveitarfélögunum. Það er ósanngjarnt og er óheiðarleg nálgun á annars fallegu verkefni.
Það er annars ánægjulegt til þess að vita að ábyrg rekstrarstjórnun og aukning tekna sveitarfélagsins séu sett á oddinn af nýjum framboðum og frambjóðendum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Stærsta og mikilvægasta verkefnið framundan er einmitt það að allir sveitarstjórnarmenn leggist nú á fullum þunga á ríkið að greiða reikninginn fyrir þau verkefni sem þau hafa lögbundið sveitarfélögin til að sinna, oft án ábyrgðar. Þannig að þjónusta við íbúa sé sem best verður á kosið. Enginn rangur eða réttur misskilningur á að gilda um það, heldur ætíð réttur skilningur.
Tómas Ellert Tómasson
M-lista, formaður bæjarráðs í Svf. Árborg