Að ræða um löggæslumál á tímum niðurskurðar er kannski að bera í bakkafullan lækinn.
Að ræða um niðurskurð og aðhald hjá lögreglunni á Selfossi ætti þó að vera hugarefni flestra Sunnlendinga. Að ræða hvert við viljum stefna? Hvernig við viljum stefna þangað? Og hvort möguleiki sé á að ná þeim markmiðum sem fólki hugnast, með þeirri stýringu fjármagns sem nú er. Verða viss byggðarlög að þola órétti og neikvæða mismunun í þessum málum? Eða sér „ríkisvaldið“ um að deila fjármagninu þannig að tekið sé tillit til þeirra verkefna sem þarf að leysa, þess fólksfjölda sem býr og dvelst á svæðinu og stærð þess svæðis sem um ræðir. Eða ræður pólitík þar gjörðum og öll heilbrigð skynsemi látin lúta þeim lögmálum sem komu okkar annars auðuga landi þangað sem það stendur í dag.
Vissulega þarf að spara, vissulega þarf að sýna aðhald á öllum stigum þjóðfélagsins. En það sýnir ekki mikla kænsku að stýra fjármagninu á þann hátt að það auki mismunun og lífsgæði þeirra íbúa sem landið byggja. Við erum nú stödd á þeim tímum að mikilvægi þess að stýra fjármagni réttlátlega hefur aldrei verið meira. Við höfum ekki lengur þann möguleika að stökkva til með fjármagn eftir á og „redda hlutunum“ og höfðum í raun þann möguleika kannski aldrei. Það er ekki síður mikilvægt að staldra við og huga að því hvað sé verið að spara og hvers vegna. Við höfum alls ekki efni á því að spara þar og það í dag sem á öðrum sviðum eða á öðrum tímum veldur auknum kostnaði.
Nú er svo komið að lögreglan í Árnessýslu samanstendur af 24 lögreglumönnum og stefnir í að sú tala geti haldist á næsta ári. En þó aðeins með verulegu aðhaldi í aukavinnu og rekstri. Þetta þýðir að á virkum dögum sinna 3- 4 lögreglumenn almennri löggæslu í sýslunni og 4 – 5 um helgar. Auk þess sinna í dagvinnu 4 lögreglumenn rannsóknum mál og þeir sömu sinna einnig rannsóknum stærri mála í Rangárvallasýslu, V-Skaftafellssýslu og í Vestmannaeyjum. Þá sinna 2 lögreglumenn ásamt 2 í yfirstjórn allri almennri starfsemi s.s. birtingum, boðunum, halda utan um ýmiss lögboðin mál, skrár o.fl.
Ef Árnessýsla fylgdi landsmeðaltali hvað varðar íbúafjölda á bak við hvern lögreglumann þá væru 34 lögreglumenn í sýslunni í dag. Ef tekið væri tillit til fleiri eða annara þátta s.s. stærð sýslunnar, lengd vegakerfisins, fjölda þéttbýlisstaða, fjölda ferðamanna, fjölda sumarhúsa og hversu mörg brot eru fram í Árnessýslu af fólki sem ekki er búsett þar, þá væru líklega allt aðrar og hærri tölur á lofti hvað varðar fjölda lögreglumanna og sú upphæð sem veitt yrði til málaflokksins mun hærri. Og er þá ekki tiltekin fangelsin í sýslunni og þeirrar staðreyndar að hér sé virkt jarðskjálfta- og eldgosasvæði.
Svo virðist sem þetta landssvæði, skuli í núverandi frumvarpi til fjárlaga, sem oftar, lúta þeirri ákvarðanatöku sem alþingi og ráðherrar setja því. Án þess að fylsta réttlætis sé gætt gagnvart íbúum þessa svæðis eða annarra íbúa sem dvelja hér í lengri eða skemmri tíma í eignum sínum. Hvað þá þeirra ferðamanna sem hingað sækja fjölmennustu ferðamannastaði landsins.
Við erum ekki annars flokks fólk sem byggjum og búum á þessu svæði. Við krefjumst ekki forréttinda eða ívilnana sem ganga á hlut annarra. Við viljum aðeins réttlæti, að það sé hugsað til lengri tíma og í víðara samhengi þegar hugað er að niðurskurði og sparnaði.
Rúnar Steingrímsson
Starfandi rannsóknarlögreglumaður á Selfossi.