„Í leikskóla er gaman þar leika allir saman….“ Þetta er byrjunin á lagi sem velflest leikskólabörn læra að syngja.
Þó ansi langt sé síðan undirrituð var í leikskóla þá get ég vel tekið undir að það er gaman að vera í leikskóla. Það er líka gagnlegt og lærdómur barnannaþar er þeim gott veganesti fyrir áframhaldandi skólagöngu í grunnskólum landsins.
Þrátt fyrir að ekki sé leikskólaskylda lítum við almennt svo á að leikskólinn sé fyrsta skólastigið og gerum miklar kröfur til þess starfs sem þar fer fram.
Í Sveitarfélaginu Árborg búum við svo vel að vera með 5 leikskóla með 6 starfsstöðvum. Á Selfossi eru Hulduheimar, Jötunheimar, Árbær og Álfheimar. Sameinaður leikskóli er á Eyrarbakka og Stokkseyri en starfsstöðvarnar eru tvær eins og fyrr segir, Æskukot á Stokkseyri og Brimver á Eyrarbakka.
Í skólunum stunda í kringum 500 börn nám og eru vinnustaðirnir því stórir og verkefnin mörg. Skólarnir starfa eftir mismunandi hugmyndafræði og kenningum og það er gríðarlega gaman að sjá hversu fjölbreytt verkefni þeirra eru.
Fræðslunefnd hefur, í samstarfi við fræðslusvið Reykjavíkurborgar, látið gera tvær kannanir á sl. þremur árum á meðal foreldra leikskólabarna. Það er ánægjulegt að sjá hversu almenn ánægja er með leikskólana okkar, velflestir foreldrar svara því til að þeim finnist börnin þeirra örugg á leikskólunum og telja að þeim líði vel þar. Þetta eru mikil og góð meðmæli enda getum við verið stolt af því starfi sem fram fer í leikskólunum okkar.
Í dag 6.febrúar er dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í leikskólum um allt land en þennan dag fyrir 64 árum stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Skólarnir hér í Árborg láta ekki sitt eftir liggja og hvet ég alla íbúa til að halda merki leikskólanna á lofti í dag og kynna sér það góða starf sem fram fer þar.
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Formaður fræðslunefndar