Að undanförnu hefur verið áberandi umræða í fjölmiðlum um fyrirhugaðar framkvæmdir við svokallaðan Búrfellslund. Við hér í Rangárþingi ytra höfum hins notast við vinnuheitið Vaðölduvirkjun í ljósi staðsetningar verkefnisins.
Verkefnið felur í sér byggingu allt að 30 vindmylla með uppsettu afli allt að 120 Mw og hámarkshæð 150 metra. Í aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 kemur fram að sveitarfélagið hafi markað sér skýra stefnu í vindorkumálum. Fram kemur að sveitarfélagið leggi áherslu að virkjun vindorku sé mikilvægur þáttur í framtíðaruppbyggingu orkumála á Íslandi og að sveitarfélagið sé tilbúið að taka þátt í þeirri þróun. Að auki hafa verið skilgreind svæði innan sveitarfélagsins sem henta vel til vindorkuframleiðslu fjarri þéttbýli og ættu að hafa lágmarksáhrif á íbúa.
Skipulagsferli vegna þessara framkvæmda er lokið og í vor var Landsvirkjun veitt framkvæmdaleyfi til þess að ráðast í jarðvegsrannsóknir og tilraunaboranir til undirbúnings á verkefninu. Fulltrúar sveitarfélagsins hafa á undanförnum mánuðum verið miklu sambandi við framkvæmdaaðila, varðandi undirbúnings málsins.
Það liggur fyrir að byggja stóra virkjun er flókið og vandasamt ferli sem verður að byggja gagnkvæmu trausti þeirra sem koma að slíkum málum. Það hefur verið okkur ljóst frá fyrsta degi að þrátt fyrir jákvæð áhrif af slíkum framkvæmdum þá fylgja einnig með neikvæðir hlutir eins og t.d. það er varðar umhverfisleg áhrif. Þetta getur dregið úr aðdráttarafli svæðisins fyrir ferðamenn en við vonumst til þess að að geta lagt enn meiri kraft í samvinnu við Landsvirkjun í virkjanatengda ferðamennsku.
Vaðölduvirkjun áhrif og tækifæri
Það er í mínum huga ljóst að framkvæmdin mun hafa jákvæð hagræn áhrif á sveitarfélagið. Það hefur verið stefna sveitarstjórnar að styðja við öll fyrirtæki sem hyggjast byggja upp atvinnulíf í sveitarfélaginu og reka sína starfsemi. Það gildir einnig um fyrirtæki eins og Landsvirkjun sem hefur verið með starfsemi í sveitarfélaginu í áratugi. Bygging og rekstur vindorkuvers af þessari stærðargráðu skapar störf bæði á byggingartíma og varanleg störf.
Það er ekki rétt sem fullyrt hefur verið að Rangárþing ytra komi út í mínus er varðar fasteignagjaldatekjur þó að eins og lagaumgjörðin er í dag þýði ekki verulegar slíkar tekjur. Hins vegar horfum við til annarra þátta er koma að hagrænum áhrifum. Staðreyndin er sú að það er verið að úthluta náttúrugæðum og ekkert nema sjálfsagt að nærsamfélagið fái jákvæða hluti í staðinn. Þar horfum við helst til uppbyggingu samgangna í tengslum við verkefnið, bætt samgöngukerfi sem getur skapað ný atvinnutækifæri og fleiri möguleika. Og aðkomu Landsvirkjunar að styrkingu Brunavarna Rangárþings sem er í takt við sambærilega samninga við önnur slökkvilið.
Starfsstöð verður á Hellu
Starfsstöð Landsvirkjunar mun rísa á Hellu, sem mun opna á ný og fjölbreyttari atvinnutækifæri á staðnum, en lengi hefur verið talað fyrir flutningi opinberra starfa út á landsbyggðina. Það hefur komið fram óformlega að Landsvirkjun muni leita til verktaka í heimabyggð til þess að koma að verkefnum sem ekki eru útboðsskyld. Einnig er í vinnslu og starfshópur að störfum sem skoðar möguleika á orkusölu í heimabyggð til uppbyggingar grænna iðngarða á Strönd á Rangárvöllum. Náist samningar um slíka orkuafhendingu skapast spennandi möguleikar til þess að laða að orkufrekan iðnað í heimabyggð.
Það er skoðun undirritaðs að bygging þessa vindorkuvers þýði margvíslegan fjárhagslegan ávinning fyrir Rangárþing ytra með auknum skatttekjum, atvinnusköpun og innviðauppbyggingu. Mér er til efs að það séu margir sem hafa tjáð sig um þessa staðsetningu vindorkuversins að undanförnu sem þekki svæðið betur en undirritaður, en sjálfur starfaði ég á svæðinu í áratugi. Það er skoðun undirritaðs ef á annað borð er vilji til þess að byggja og reka vindorkugarða hér á landi eru fáir staðir á Íslandi betri, auk þess sem möguleikar skapast til þess að nýta þá innviði sem fyrir eru á Þjórsár-Tungnaársvæðinu.
Sveitarstjórn Rangárþings ytra mun taka framkvæmdaleyfisumsókn Landsvirkjunar til afgreiðslu á fundi sínum miðvikudaginn 11. september nk.
Eggert Valur Guðmundsson,
oddviti Rangárþings ytra