Á 30. fundi Eigna- og veitunefndar í Svf. Árborg var til umfjöllunar uppgjör vegna byggingar fjölnota íþróttahúss á Selfossvelli. Við umfjöllun um málið lagði meirihluti D-lista fram bókun þar sem fullyrt var að kostnaður við byggingu mannvirkisins hefði farið 55% fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun eða sem næmi 657 milljónum og heildarkostnaðurinn verið tæplega 1.860 milljónir með vsk.
Í kjölfarið á þessari bókun óskaði undirritaður eftir því að sviðsstjóri mannvirkja- og umhverfissviðs legði fram uppgjör á kostnaði við framkvæmdina þar sem fulltrúar minnihlutans í nefndinni töldu verulegan vafa leika á því að upphæðir þær sem settar voru fram í bókun D-listans stæðust skoðun og væru samanburðarhæfar.
Það kom svo í ljós á 32. fundi eigna- og veitunefndar, þann 2. júlí sl., að skv. uppgjöri sviðsstjóra fór kostnaðurinn 9% fram úr kostnaðaráætlun eða rúmar 111 milljónir króna. Heildarkostnaðurinn við bygginguna var tæplega 1.350 milljónir án vsk. og var ávallt innan fjárheimilda fjárfestingaáætlunar hvers árs meðan á framkvæmdinni stóð. Þess ber að geta að kostnaður við verkframkvæmdir eru ekki gefnar upp með vsk. þar sem hann fæst endurgreiddur.
Í ljósi þess að í bókun meirihluta D-lista voru settar fram villandi og rangar upplýsingar fóru fulltrúar minnihlutans fram á að formaður nefndarinnar segði af sér vegna vanhæfis jafnframt að bókun meirihlutans yrði dregin til baka og bæði íbúar og starfsfólk beðið afsökunar á rangfærslunum.
Enn sem komið er hefur ekki verið orðið við því.
Vanhæfi eða lygar?
Það er ekki laust við að það læðist að manni sá illi grunur að fulltrúar D-lista hafi vísvitandi lagt fram rangar og villandi upplýsingar til að reyna að láta líta svo út að kostnaður við Selfosshöllina hafi verið hærri en raun bar vitni. Tilgangurinn með því hafi verið sá að koma kostnaðinum í átt að þeim 3 milljörðum sem fulltrúar þeirra fullyrtu að framkvæmdin hefði kostað í samtölum við íbúa í kosningabaráttunni fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar.
Að því sögðu þá stendur það núna uppá kjörna fulltrúa D-listans og formann eigna- og veitunefndar að upplýsa íbúa hvort um var að ræða vanhæfi og skort á skilningi við túlkun og framsetningu á uppgjöri framkvæmdarinnar eða vísvitandi blekkingar og lygar í þeim tilgangi að koma höggi á pólitíska andstæðinga og villa um fyrir íbúum Árborgar.
Hvort heldur sem er þá eiga íbúar heimtingu á faglegri vinnubrögð frá kjörnum fulltrúum en raunin hefur verið í þessu máli.
Að lokum hvet ég íbúa til að kynna sér málið með því að lesa yfir fundargerðir eigna- og veitunefndar frá 16. apríl og 2. júlí sl.
Sigurjón Vídalín Guðmundsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingar í Svf. Árborg