Við hjá Áfram Árborg bæjarmálafélag en ekki stjórnmálaflokkur. Bæjarmálafélagið Áfram Árborg er samstarf Pírata, Viðreisnar og óháðra. Og það eru margir óháðir með okkur í liði. Nærumhverfið og málefni samfélagsins sem þú býrð í er oftast ekki flokkspólitískt mál. Eftir reynslu þessa kjörtímabils sem nú er að enda komið, hef ég komist að því að um 80% mála eru allir flokkar sammála um. Það þarf skóla hér, fylla upp í holu á malbikinu þarna, hugsa um og þjónusta fatlaða, reka leikskóla og svona mætti lengi telja.
En það eru þessi 20% þar sem ágreiningurinn liggur. Og í stað þess að bæjarstjórn tali sig saman að niðurstöðu sem allir eru sáttir við, þá er farið í sandkassaleikinn. Við hjá Áfram Árborg tökum ekki þátt í sandkassaleiknum. Hann er barn síns tíma. Við viljum heiðarleg og heilbrigð stjórnmál.
Í öðru lagi þá skiptast sveitarstjórnir oftast í meiri- og minnihluta. Meirihlutinn gerir í því að halda upplýsingum frá minnihlutanum því þeir vilja ekki láta minnihlutann hanka sig á einu eða neinu.Þetta finnst okkur í hæsta máta óeðlileg og óvönduð vinnubrögð. Allar upplýsingar eiga að vera uppi á borðum, fyrir minnihlutann sem og íbúa.
En upplýsingar eru valdatól og oft gott að halda spilunum þétt að sér. En það er hvorki heiðarlegt né heilbrigt. Við hjá Áfram Árborg teljum að það sé sjálfsagt að meiri- og minnihluti, sem og íbúar, standi jafnt að vígi þegar kemur að upplýsingum. Við verðum að taka tillit til þess að það er fullt af íbúum sem kusu minnihlutann og þeir eiga rétt á jafnræði þegar kemur að upplýsingum.
Þetta er okkar sérstaða.
Okkur er líka sama hvaðan góð hugmynd kemur. Við skoðum allar hugmyndir, sama hvaðan þær koma.
Við viljum menningarhús á Selfossi og menningarsali á Stokkseyri og Eyrarbakka.
Við viljum auka félagslegt húsnæði og útrýma biðlistum.
Við viljum frístundastyrki fyrir börn allt frá fæðingu og fram að 18 ára aldri.
Við erum með hinsegin stefnu.
Við erum með mannréttindastefnu
Við viljum móta þjónustustefnu
Við viljum auka nýsköpun og skapandi greinar
Við viljum bæta aðstæður leik- og grunnskólakennara. Það er flótti úr stéttinni, sérstaklega innan leikskólanna sem þarf að taka á.
Við viljum sjá Árborg sem hjólreiðahöfuðborg
Við viljum það besta fyrir börnin okkar:
Valdeflum ungt fólk og tryggjum áhrif þeirra innan sveitarfélagsins.
Eflum fjármála- og tæknilæsi, hinseginfræðslu, list- og verkgreinar, umverfisvitund ásamt kynfræðslu á öllum skólastigum og fyrir alla íbúa. Við þurfum að auka menningar- og listsköpun á öllum skólastigum
Við viljum fjölbreytt og skemmtilegt samfélag þar sem allir hafa pláss til að vera eins og þeir eru. Áfram Árborg vill að sveitarfélagið verði fallegt og nútímalegt sveitarfélag þar sem hver byggðakjarni fær að njóta sín á eigin forsendum. Árborg er höfuðstaður Suðurlands í örum vexti og með fjölbreytt tækifæri til að skara fram úr í nýsköpun, mennta- og umhverfismálum ásamt skapandi greinum. Árborg verður vel rekið sveitarfélag og eftirsóknarvert til að búa í með framúrskarandi þjónustu við alla íbúa og fyrirtæki.
Þannig tryggjum við lífsgæði allra og að Árborg verði eftirsóknarverður staður til að búa í.
Setjum X við Á þann 14. maí nk.
Álfheiður Eymarsdóttir
Oddviti Á lista Áfram Árborgar