Við í Flóalistanum ákváðum strax í upphafi að allt okkar framboð yrði opið þannig að sem flestir gætu tekið þátt í því sem áhuga hefðu.
Haldinn var opinn íbúafundur þar sem fólk gat boðið sig fram til starfa. Þarna var sleginn tónninn sem við í Flóalistanum viljum viðhalda. Það liggur í augum uppi að markvisst samráð við íbúa stuðlar að betri ákvörðunum og meiri framsýni. Þeir sem eru í sveitarstjórn mega ekki gleyma því að þeir starfa í þágu íbúanna samkvæmt umboði frá þeim. Íbúarnir hafa þekkingu og skoðanir á umhverfi sínu og þeirri þjónustu sem sveitarfélagið veitir þeim. Viljum við leggja mikla áherslu á samtal við íbúa með almennum fundum sem haldnir verða a.m.k. tvisvar sinnum á ári. Á þeim fundum verður einnig hægt að vera með fræðslu um einstök málefni sem eru í brennidepli hverju sinni í sveitarfélaginu.
Okkur þykir mikilvægt að virkja mannauðinn sem við höfum hér í Flóahreppi. Það eru margar nefndir sem þarf að manna, sem munu vinna mikla undirbúningsvinnu svo að þeir sem sitja í sveitarstjórn geti tekið upplýsta ákvörðun. Við val í slíkar nefndir verður að horfa til reynslu, menntunar og ekki síst áhuga. Við í Flóalistanum ætlum að hafa allan framboðshópinn virkan og aðgengilegan. Við búum líka svo vel að eiga gott bakland, sem við viljum virkja til góðra verka.
Innan sveitarstjórnarinnar þarf að ríkja traust og samvinna. Ný sveitarstjórn ætti að taka meðvitaða ákvörðun um hvernig hún vill starfa og leggja áherslu á að vinna sem heild. Við í Flóalistanum viljum ekki horfa til fortíðar heldur einbeita okkur að því að skapa jákvæða framtíð.
Sigurbára Rúnarsdóttir, skipar 3. sæti á F – Flóalistanum í Flóahreppi.