Í Dagskránni, miðvikudaginn 21. apríl, var grein þess efnis að Margrét Katrín Erlingsdóttir legði til að breyting yrði gerð á lögreglusamþykkt Árborgar og siglingar leyfðar á Ölfusá.
Þetta bann felur í sér að umferð skipa, báta og annarra vatnafarartækja sé bönnuð á Ölfusá frá landamörkum Hraungerðishrepps og Árborgar í austri að Kaldaðarnesi í vestri, en með þessari breytingartillögu myndi þetta siglingarbann falla úr gildi. Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á 57. fundi bæjarstjórnar að vísa þessari breytingu til síðari umræðu. Þann 29. apríl tók Umhverfis- og skipulagsnefnd málið til umfjöllunar og lagðist nefndin gegn leyfisveitingum til almennra siglinga og áréttaði einnig bann við siglingum á varptíma fugla frá 15. apríl til 15. júní.
Að sögn Margrétar er Ölfusáin vatnsmikil og á köflum straumþung sem er rétt, meðalrennsli hennar er á milli 400 – 500 m3/s. Til að setja þetta vatnsmagn í samhengi við nýliðna atburði, þá var flóðið í Markarfljóti í kringum 250 m3/s og þótti það töluvert flóð. Margrét segir að „Ölfusáin sé þó ekki hættulegri en margar aðrar ár sem öllum er heimilt að sigla á“. Að hennar mati þykir því ekki ástæða til að banna siglingar á Ölfusá frekar en í öðrum ám þar sem siglingar eru stundaðar. Hún telur einnig að með því að leyfa siglingar á Ölfusá, geti það aukið og eflt ferðaþjónustuna. Einnig vitnar hún í vatnalög sem segja „að ekki sé heimilt að hamla umferð um ár og vötn“. Þó svo að samkvæmt vatnalögum sé ekki heimilt að hamla umferð um ár og vötn, þá þykir mér það glapræði að fara í siglingar þar sem mestur straumurinn og flúðirnar eru í ánni, hér við Selfoss.
Undirritaður er uppalinn Selfyssingur og alla tíð hefur verið brýnt fyrir börnum hér á Selfossi að leika sér ekki við Ölfusá, því hún sé bæði vatnsmikil og straumhörð og alls ekkert leiksvæði. Ég hef alla tíð borið óttablandna virðingu fyrir Ölfusá og veit að lítið þarf útaf að bregða til að straumþungi hennar grípi fólk og hafa flestir sem fengið hafa að finna fyrir krafti hennar ekki verið til frásagnar eftir þá sorglegu lífsreynslu. Þegar ég fór að verða eldri og fór með föður mínum til veiða í ánni, þá kynntist ég því enn betur hversu gríðarlegan kraft áin hefur að geyma. Því skrifa ég þessa grein bæði sem veiðimaður og Selfyssingur og er ég mjög mótfallinn siglingum á Ölfusá. Einnig langar mig að skora á stjórn Stangveiðifélags Selfoss að leggjast gegn þessum breytingum þar sem þær geta haft mikil áhrif á veiði í Ölfusá.
Ef af þessum breytingum verður, getur það því miður kostað mannslíf, þar sem margir sem fara í svona siglingar (River rafting) hafa litla og jafnvel enga reynslu í þessari gerð siglinga. Einnig mun ég ekki sætta mig við að standa við bakka Ölfusár með veiðistöngina og sjá bát, fullan af fólki sigla yfir veiðisvæðið og jafnvel yfir helstu tökustaðina. Minn skilningur á því að þegar ég kaupi mér veiðileyfi í Ölfusá, þá sé ég í rauninni að leigja svæðið og kæri ég mig ekki um siglingar nærri mínu leigða veiðisvæði.
Einnig má velta því fyrir sér hvað myndi gerast ef þessar breytingar verða samþykktar og siglingar leyfðar á Ölfusá. Börn sem hafa alist upp við það að ekki megi leika sér við ánna sjá síðan fullorðna fólkið koma siglandi niður hana í skemmtiferð og má þá segja að þar sé áratuga forvarnarstarf farið forgörðum. Hugsanlega gætu börn farið og smíðað sér fleka og siglt af stað eins og fullorðna fólkið og hvað gerist þá?
Ég mótmæli því hér með þessum breytingum á lögreglusamþykkt Árborgar og vona að bæjarstjórn sjái að sér og haldi siglingabanni á Ölfusá áfram í lögreglusamþykktinni. Að mínu mati hefur Ölfusá tekið of mörg líf og get ég ekki sætt mig við það að fólk storki örlögunum með því að vera með fíflalæti á bát og gefa Ölfusánni færi á að taka fleiri líf.
Sigurjón Valgeir Hafsteinsson