Silja Dögg: Árangur í húsnæðismálum

Húsnæðismálin hafa því verið ofarlega á baugi undanfarin misseri þar sem húsnæðismarkaðurinn á Íslandi hefur verið fremur erfiður.

Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á þann málaflokk. Alþingi samþykkti að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán og opna tækifæri til að nýta séreignasparnað til niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána. Í vor voru fjögur húsnæðisfrumvörp samþykkt á Alþingi og í haust frumvarp um Fyrstu kaup, sem hugsað er fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu eign. Öll frumvörpin eiga að bæta hag heimilanna og auka húsnæðisöryggi.

Fasteignaeigendur
Þó svo að samþykkt frumvörp hafi verið ágætlega kynnt þá eru enn sumir sem þekkja ekki hvaða breytingarnar fela í sér. Leiðréttingin var almenn efnahagsaðgerð til að rjúfa efnahagslega kyrrstöðu, lækka skuldir heimilanna, auka hagvöxt og hvetja til aukinnar fjárfestingar í íbúðahúsnæði. Leiðréttingin nýttist best þeim heimilum sem lægstar höfðu tekjurnar. Skuldir heimilanna hafa ekki verið lægri síðan árið 2003.

Leigjendur
Þegar búið var að leiðrétta lán heimilanna og létta þeim róðurinn, þá var komið að leigjendum. Fyrsta skrefið var að breyta húsaleigulögum. Sú breyting fól í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala. Auk þess var verið að skerpa á atriðum, sem deilumál hafa orðið um í leigusamningum undanfarin ár. Markmið Framsóknarflokksins er að fólk geti búið í öruggu húsnæði og að kostnaður fari ekki yfir 20-25% af tekjum. Með nýjum lögum um „almennar íbúðir“ er gert ráð fyrir að byggðar verði samtals 2.300 íbúðir á þessu ári og næstu þremur árum fyrir efnaminni leigjendur en ríki og sveitarfélög koma inn með 30% fjármögnun. Með auknu framboði og breyttu fjármögnunarformi, lækkar leiguverð. Lög um húsnæðisbætur fela í sér stóraukinn stuðning fyrir leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð og stuðningur miðast við fjölskyldustærð. Verið er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform.

Kaupleiga
Framsóknarflokkurinn beitt sér fyrir því að laga eldri lög um húsnæðissamvönnufélög (sbr. Búseti/Búmenn). Markmið lagabreytinganna var að styrkja rekstur húsnæðissamvinnufélaga, auka gagnsæi í rekstri þeirra, auka réttindi íbúa og koma á íbúalýðræði innan félaganna.

Unga fólkið-fyrsta eign
Fólk á aldrinum 25-29 ára mun líklegra til að búa í foreldrahúsum nú en fyrir áratug. Ríkisstjórnin mætti þessum hóp með löggjöf um “fyrstu kaup”. Þá getur einstaklingur valið um þrjár leiðir til að ráðstafa viðbótariðgjaldi lífeyris. Þær eru heimild til úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð, heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, yfir tíu ára samfellt tímabil og að lokum heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess. Greiðslur hvers einstaklings inn á séreignarsparnað geta numið allt að 5 milljónir á tíu ára tímabili, samtals 10 milljónir fyrir par.

Orð og efndir
Framsóknarflokkurinn lofaði fyrir síðustu kosningar að leiðrétta skuldastöðu heimilanna og tryggja fólki öruggt húsnæði – koma til móts við eigendur, leigjendur og þá sem hyggja á fyrstu kaup. Við stóðum við loforðin. Við berum hag heimilanna fyrir brjósti. X-B.

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
þingmaður Framsóknarflokksins

Fyrri greinNorrænn fundur um fyrirtækjaíþróttir á Selfossi
Næsta greinSamningur um gestastofu á Kirkjubæjarklaustri undirritaður