Samgöngumál á landsbyggðinni eru víða í ólestri. Of litlu fé hefur verið varið til viðhalds vega síðustu ár og það er farið að segja verulega til sín.
Ríkið mun þurfa að leggja í gríðarlegan kostnað eftir nokkur ár ef viðhaldi verður ekki betur sinnt. Svo virðist sem við séum að kasta krónunni fyrir aurinn.
Margra ára vanræksla
Viðhald á bundnum slitlögum endist í 7-10 ár í viðbót en víða er það orðið 10-12 ára. Hér áður fyrr var stitlaginu haldið við með því að leggja nýtt slitlag á nokkra kólómetra á hverju ári, en ef framheldur sem horfir þá þarf að leggja bundið slitlag á mjög langa kafla þegar þar að kemur. Vegirnir eru víða orðnir holóttir á þessum svæðum og fara að verða hættulegir, og sums staðar orðnir mjög hættulegir.
Skólaakstur og ferðamenn
Mjög margir tengivegir í sveitum landsins eru illa farnir sem ógnar umferðaröryggi. Þeir eru jafnvel ekki heflaðir reglulega. Börn sem búa í sveitum þurfa oft að sækja skóla um langan veg og þurfa þá að fara um þessa hættulegu vegi í alls konar veðrum. Aukinn straumur ferðamanna um þessi svæði skapar einnig álag á vegina og við því þarf að bregðast. Að mínu mati ættu tengivegir þar sem skólaakstur er, að vera á forgangslista hvað varðar viðhald og eftirlit.
Bundið slitlag á malarvegi
Ársþing Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi fór fram nýverið en í ályktun þingsins um samgöngumál kemur m.a. fram „að skynsamlegt sé að leggja áherslu á lagningu bundins slitlags á núverandi vegi með nauðsynlegum lagfæringum og spara þar með viðhald malarvega.” Ég tek undir þetta sjónarmið.
Einbreiðar brýr
Í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslu eru ennþá rúmlega tuttugu einbreiðar brýr á þjóðvegi 1, sem ég tel ekki vera boðlegt árið 2013. En í öðrum kjördæmum eru slíkar brýr sjaldséðar og heyra jafnvel sögunni til, sem er gott. Samkvæmt samgönguáætlun eru einbreiðar brýr ekki á áætlun fyrr en 2019-2022. Ég tel jafnvel að mögulegt sé að flýta slíkum framkvæmdum og kostnaður yrði jafnvel talsvert lægri, ef við nálgumst þær út frá nýjum forsendum.
Af samtölum mínum við starfsmenn vegagerðinnar er hugsanlega mögulegt að setja ræsi undir nokkrar ár og losna þannig við brýrnar. Sumar brýr eru steyptar og í góðu standi. Það mætti jafnvel skoða að steypa við þær þar sem stál hefur hækkað mikið í verði, þannig að steypa gæti verið hagkvæmari. Sums staðar eru fyrirhugaðar breytingar á veglínu. Til dæmis þegar nýr vegur kemur um Hornafjarðarfljót þá detta þrjár brýr af listanum. Núverandi brú yfir Hornafjarðarfljót er stórvarasöm en samkvæmt samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir að framkvæmdir við nýja brú yfir fljótið, hefjist fyrr en árið 2018. Framkvæmdin er arðsöm og mun stytta hringveginn um 11 km.
Vilji til að auka viðhald vega
Greinarhöfundur hóf umræður um þessi mál á Alþingi í síðustu viku. Innanríkisráðherra tók undir þau sjónarmið að viðhaldi hafi verið ábótavant á umliðnum árum og segist muni leita leiða til að bæta þar úr. Ráðherrar sagðist líka ætla að skoða leiðir til að hraða ákveðnum nýframkvæmdum og mun kynna það síðar í vetur.
Samgönguráð vinnur nú að gerð fjögurra ára áætlunar og skilar henni til innanríkisráðherra fyrir áramót. Áætlunin verður í framhaldinu lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og þingið mun taka afstöðu til hennar. Næsta langtímaáætlun í vegagerð verður síðan fyrir tímabilið 2015-2026 og að sögn ráðherra mun það ráðast af fjármagni sem veitt verður til vegamála, hvort unnt sé að flýta framkvæmdum við einbreiðar brýr á Suðurlandi.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, 3. þingmaður Suðurkjördæmis, Framsóknarflokki.