Dagurinn 30. nóvember var stór dagur og mun eiga sinn sess í sögubókum framtíðarinnar.
Þann dag kynnti ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tillögur um skuldaleiðréttingu á verðtryggðum stökkbreyttum húsnæðislánum.
Eignalausa kynslóðin
Alveg síðan að Hrunið varð haustið 2008 hafa heimili landsins beðið eftir aðgerðum. Núverandi ríkisstjórn lofaði aðgerðum því það er mun dýrara fyrir samfélagið að skilja heimilin eftir í skuldum og heila kynslóð eftir eignalausa, en að leysa vandann. Sérfræðingahópurinn að baki skuldaleiðréttingunni hefur nú skilað afar vandaðri skýrslu og á heimasíðu Forsætisráðuneytisins má finna skýrsluna, Spurt og svarað, glærukynninguna og fleira sem að gagni kemur til að átta sig á í hverju aðgerðirnar felast.
Leiðréttingin
Leiðréttingin er almenn aðgerð sem felst í að verðtryggð húsnæðislán verða færð niður um fjárhæð sem svarar verðbótum umfram 4,8% sem féllu til á tímabilinu desember 2007-ágúst 2010. Tekið verður tillit til fyrri úrræða, m.a. 110% leiðarinnar. Hámarksfjárhæð niðurfærslu er 4 milljónir á heimili og leiðréttingin verður gerð á fjórum árum. Þessi leið mun ekki hafa þensluhvetjandi áhrif á samfélagið að mati sérfræðinga. Gert er ráð fyrir að leiðréttingin fari fram um mitt árið 2014 og úrræði séreignarsparnaðar hefjist sama ár. Þeir sem nýta sér bæði úrræðin geta fengið um 20% höfuðstólslækkun fyrir lok árs 2017 að gefnum forsendum um verðbólgu, lánsfjárhæð og launaþróun.
Nær til flestra heimila
Skattfrjálsan séreignasparnað geta allir nýtt sér, ekki bara skuldarar heldur líka ungt fólk sem býr í foreldrahúsum og leigjendur. Með því að bjóða upp á þennan möguleika þá nær aðgerðin til 100 þúsund heimila í landinu af 125 þúsund, en aðeins 21 þúsund heimila eru skuldlaus. Aðrir skulda eða leigja.
Gagnrýnt hefur verið að hátekjufólk muni græða mest á séreignarsparnaðarleiðinni en það er ekki rétt, þar sem þakið er 500 þús. kr. á heimili á ári, sem miðast þá við að samanlögð mánaðarlaun heimilis séu um 700 þús. kr. Sú staðreynd að þak sé á leiðréttingunni upp á 4 millj. króna tryggir líka að fyrst og fremst sé verið að koma til móts við millistéttina og bæta kjör sem flestra heimila en flestir skulda minna en 25 milljónir króna.
Þörf á frekari aðgerðum til að leysa vandann
Heimilin eru grunneining samfélagsins. Ef þau virka ekki þá er kyrrstaða. Aðgerðaráætlun í tíu liðum um lausn á skuldavanda heimilanna var samþykkt á Alþingi í sumar.
Skuldaleiðréttingin var aðeins einn liður í þeirri áætlun. Það er ljóst að verkefnin framundan eru fjölmörg. Skuldaleiðréttingin ein og sér leysir ekki vanda allra, en hún er skref í rétta átt. Framundan eru bjartari tímar og nýtt framfaraskeið íslenskrar þjóðar.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins