Öll vitum við að ekkert verður til úr engu. Til þess að skapa verðmæti þá þurfum við atvinnu. Til þess að auka hagvöxt og byggja upp velferð þá þurfum við að auka fjárfestingar og framleiðni.
Stöðugt og fjölbreytt atvinnulíf byggist á hugviti og dugnaði einstaklinga en rekstrarumhverfið þarf líka að vera hagstætt. Skattpíning skilar engu. Fyrirtæki þurfa einfaldara regluverk og einfaldara skattkerfi til að geta vaxið. Viði megum ekki höggva ræturnar af trénu, við verðum að vökva það og næra. Hið sama gildir um fyrirtækin okkar.
Blómlegt atvinnulíf er undirstaða velferðar
Um 90% íslenskra fyrirtækja eru lítil og meðalstór. Stöðugleikinn er meiri þegar við höfum ekki öll eggin í sömu körfunni því telur Framsóknarflokkurinn mikilvægt að leggja áherslu á að styrkja hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þegar skattaumhverfi þeirra er orðið vænlegra þá skila þessi fyrirtæki meiri tekjum, sem þýðir að þau geti fjölgað störfum. Það þýðir að fleiri fá atvinnu, atvinnuleysi minnkar, tekjur heimilanna hækka og staða þeirra batnar.
Litli kallinn borgar
Rekstur smærri fyrirtækja hefur verið mjög erfiður síðustu misseri. Ástæðurnar eru margar. Helst má nefna óhagstætt gengi krónunnar, aukinn rekstrarkostnað og hærri afborganir lána. „Stóru kallarnir“ fengu margir hverjir afskrifaðar skuldir eftir Hrun en „litlu kallarnir“ sitja uppi með sínar skuldir. Sumir fyrirtækjaeigendur halda áfram ennþá á þrjóskunni en aðrir hafa því miður gefist upp. Í stað þess að auðvelda atvinnurekendum róðurinn á þessum erfiðu tímum, þá hefur núverandi ríkisstjórn gert sitt til að þyngja hann enn frekar með endalausum skattaálögum. Rekstarumhverfið hefur verið mjög óstöðugt og menn veigrað sér við að fara út í frekari fjárfestingar því óvissa ríkir um í hverju skuldbindingarnar muni felast.
Þessu þarf að breyta og því ætlar Framsókn að beita sér fyrir fái hún til þess umboð frá kjósendum í vor. Vinna, vöxtur, velferð eru sígild slagorð. Við verðum að byggja upp atvinnulífið með öllum ráðum. Fjölskyldan og heimilin eru undirstaða samfélagsins en þau eiga allt sitt undir því að atvinnulífið gangi vel.
Framsókn fyrir atvinnulífið! Framsókn fyrir heimilin! Framsókn fyrir Ísland!
Silja Dögg Gunnarsdóttir 2. sæti Framsókn í Suðurkjördæmi