Íslenskt veður og íslensk stjórnmál eiga margt sameiginlegt. Það skiptast á skin og skúrir og maður veit aldrei við hverju er að búast.
Íslenskt efnahagskerfi hrundi haustið 2008 eftir velmegunartímabili en fram að því stóðu margir í þeirri trú að íslenskir bankamenn væru ofurmenni. Sú var ekki raunin og almenningur tók afleiðingunum. En öll él styttir upp um síðir. Það má segja að þungu fargi hafi verið lyft af þjóðinni þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við vorið 2013. Á aðeins einu ári hefur núverandi ríkisstjórn lyft grettistaki og komið efnahagslífinu á réttan kjöl. Það eru bjartir tímar framundan á Íslandi.
Heimilin eru undirstaðan
Fyrsta mál ríkisstjórnarinnar á haustþingi 2013 var að leggja fram þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Tillagan var í 10 liðum og nú að þingi loknu hefur öllum liðum hennar verið lokið eða komið í áframhaldandi farveg. Leiðréttingin ber þar hæst en með henni er komið til móts við heimili með verðtryggð húsnæðislán með aðgerðum sem fyrri ríkisstjórn hélt fram að væru óframkvæmanlegar. Heildaráhrif leiðréttingarinnar eru metin um 150 milljarðar fyrir 100 þúsund heimili. Umsóknarfrestur var til 1. september og ég vona að sem flestir hafi nýtt sér úrræðin.
Bjartsýni í stað svartsýni
Mjög jákvæð breyting hefur orðið á helstu hagtölum og efnahagsstærðum á því ári sem er líðið síðan ríkisstjórnin tók við. Hallalaus fjárlög voru lögð fram í fyrsta sinn frá hruni. Atvinnuleysi er það minnsta í Evrópu og kaupmáttaraukning er ein sú mesta í Evrópu. Hagvöxtur síðasta árs er mun betri en spáð var og spáð er enn betri (rúmlega 3%) hagvexti á þessu ári. Aukin bjartsýni hefur aukið einkaneyslu og fjárfestingu. Hagvöxtur er drifinn áfram af fjárfestingu og útflutningi. Bjartsýni hefur tekið við af svartsýni og eymdarvísitalan hefur ekki verið lægri síðan 2007.
Þjóðarskútan siglir í rétta átt
Suðurlandið er eitt vinsælasta ferðamannasvæði landsins. Þar eru grösugar sveitir, fjölmargar náttúruperlur og síðast en ekki síst auðugt mannlíf og metnaðarfull ferðaþjónustufyrirtæki sem hafa nú þegar fest sig í sessi. Allt útlit er fyrir að sú aukning sem verið hefur á komu erlendra ferðamanna hin síðari ár, haldi áfram. Stjórendur í atvinnulífu telja að fjárfestingar á árinu muni aukast, þá sérstakleg í ferðaiðnaði og hjá smærri fyrirtækjum. Það eru góðar fréttir fyrir atvinnulífið.
Senn verður réttað í sunnlenskum sveitum og þá munu menn gleðjast saman. Ekki endilega yfir góðu horfum í efnahagslífinu heldur góðum heimtum af fjalli og girnilegri lambasteik.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins