Sjálfbær rekstur í Árborg

Nú erum við bæjarstjórn, stjórnendur og starfsfólk á fullu við að tryggja ábyrgan og sjálfbæran rekstur Sveitarfélagsins Árborgar til framtíðar. Við erum með KPMG okkur til aðstoðar og einnig var komið á fót sérstöku hagteymi starfsfólks.

Vandinn er ærinn
Við höfum tekið á móti mörgum nýjum íbúum undanfarin ár og komum til með að gera það áfram, þó vissulega í minna mæli. Vaxtaverkirnir hafa reynst gríðarlega erfiðir og reynt á innviði, starfsfólk og fjármálin. Svo erum við að eiga við afleiðingar Covid, 10,2% verðbólgu og 7,5% vexti. Þannig að verkefnið er stórt og flókið. Á síðasta bæjarstjórnarfundi samþykktum við yfirmarkmið um sjálfbæran rekstur, en enn á eftir að svara því hvernig og með hvaða aðgerðum við komumst þangað.

Lausnir
Þegar hefur verið ráðist í einhverjar hagræðingaraðgerðir og bæjarstjóri fengið heimild til að selja a.m.k. eina eign. Mest af vinnunni er á hugmyndastigi en við viljum gera þetta fljótt og vel. Við þurfum að skila til innviðaráðuneytisins þann 30.apríl nk. raunhæfri áætlun um hvernig við snúum skipinu við.

En þetta er ekki einkamál bæjarstjórnar og starfsfólks heldur viljum við í Áfram Árborg gefa íbúum kost á því að koma með hugmyndir um hvernig þessu verði best fyrir komið. Íbúarnir vita best hvaða þjónustu þeir þurfa og við vitum að á meðal ykkar leynast snjallar hugmyndir um sparnað í rekstri sem kemur ekki niður á gæðum þjónustu.

Einnig ef þið hafið athugasemdir um það sem þegar hefur verið gert. Hrós, kvartanir og allskonar. Þess vegna verð ég með viðtalstíma í Bankanum í apríl og maí. Það eina sem þarf að gera er að hafa samband við undirritaða á netfangið alfheidur.e@arborg.is og panta tíma. Það má líka hringja í mig í 7734944. Ef ég svara ekki, er ég líklega upptekin og hringi til baka um leið og ég hef tíma.

Íbúalýðræði
Það er mikilvægt að við tökum öll höndum saman um að leysa þennan vanda, því við viljum jú öll búa í sjálfbæru og vel reknu sveitarfélagi, þar sem teknar eru upplýstar ákvarðanir og vinnubrögð eru vönduð.

Bestu kveðjur til allra íbúa sveitarfélagsins,
Álfheiður Eymarsdóttir
Bæjarfulltrúi Á lista, Áfram Árborg.

Fyrri greinTveimur bjargað úr Fagrafelli í nótt
Næsta greinKostnaður við endurbætur um 100 milljónir króna