Sjálfstæðisflokkurinn styður öflugan landbúnað í þágu þjóðar

Við erum fámenn þjóð í stóru, auðugu en harðbýlu landi og hefur landbúnaður frá upphafi byggðar skipt okkur Íslendinga miklu máli. Landbúnaður, ásamt sjávarútvegi, hefur verið hluti af fæðuöryggi þjóðarinnar og grunnstoð íslensks efnahagslífs. Þrátt fyrir að þessa mikilvægu atvinnugreinar hafi þróast með ólíkum hætti, er virði beggja fyrir íslenskt samfélag óumdeilt.

Ein meginástæða ólíkrar þróunar greinanna liggur í því að íslenskur landbúnaður hefur ekki notið sambærilegs stuðnings eða áherslu á nýsköpun og markaðssetningu eins og sjávarútvegurinn. Danskar landbúnaðarafurðir má finna um allan heim, þökk sé vörugæðum og árangursríku markaðsstarfi. Sama má segja um íslenskt skyr og jafnvel íslenskt vatn, sem hafa sannað að íslenskar afurðir geta skapað sér sess á alþjóðamarkaði með réttum stuðningi. Það er því ljóst að með breyttum áherslum eru mikil sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað.

Landbúnaður hefur mikið gildi sem atvinnugrein og stór atvinnurekandi, en fyrir íslenskt samfélag þó mun meira. Landbúnaður gegnir lykilhlutverki í bæði byggðastefnu okkar og þjóðaröryggisstefnu. Landbúnaður er mikilvægur til að tryggja byggð í sveitum landsins, um allt land og í þágu ferðaþjónustunnar, sem og til að tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar. Það er því hagsmunamál okkar allra að tryggja að hér starfi öflugur landbúnaður.

Gott starfsumhverfi í landbúnaði
Það gerum við með því að búa einstaklingum og fyrirtækjum í landbúnaði gott starfsumhverfi. Einfalda þarf regluverk og skapa aðstæður sem hvetja til nýsköpunar og framþróunar. Um leið er nauðsynlegt að tryggja skýrar reglur um uppruna og merkingar matvæla, svo íslenskar vörur njóti þess trausts sem þær eiga skilið. Þannig er hægt að byggja upp sterka ímynd íslenskra landbúnaðarafurða, líkt og sjávarafurðir hafa notið.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að búa bændum og öðrum fyrirtækjum í landbúnaði starfsumhverfi sem hvetur til nýsköpunar og framþróunar. Ennfremur að einfalda regluverk og ryðja hindrunum úr vegi. Það er mikilvægt að tryggja samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar í harðri alþjóðlegri samkeppni og leggja ekki ríkari kvaðir á íslenskan landbúnað en nágrannaþjóðir okkar gera.

Forsenda nýliðunar og fjárfestingar í greininni er gott starfsumhverfi þar sem unnt er að horfa til framtíðar. Í komandi búvörusamningum þarf að huga að framangreindum þáttum og tryggja sjálfbæran og virðisaukandi landbúnað, til hagsbóta fyrir bændur og ekki síður fyrir land og þjóð. Með réttri stefnumótun og stuðningi getur íslenskur landbúnaður blómstrað og skapað framtíð þar sem við framleiðum hrein og gæðamikil matvæli fyrir bæði heimamarkað og alþjóðamarkað.

Árangursríkur og sjálfbær landbúnaður er grunnstoð íslensks sjálfstæðis og velmegunar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur skýra framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað þar sem nýsköpun, sjálfbærni og hagkvæmni eru í fyrirrúmi. Með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn styður þú við öfluga stefnu sem tryggir bæði stöðugleika og framþróun í þágu bænda og landsmanna allra.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
dómsmálaráðherra og skipar 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi
Ingveldur Sigurðardóttir,
3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Fyrri greinMikill vatnsleki í Sunnulækjarskóla
Næsta greinGuðjón tilnefndur sem Framúrskarandi ungur Íslendingur