Skuldir Sveitarfélagsins Árborgar

Á laugardaginn kemur, 14. maí, verður kosin ný bæjarstjórn í Árborg. Fjármál sveitarfélagsins hafa nokkuð verið til umræðu og hafa sjálfstæðismenn haft sig þar mest í frammi. Í þeirri umræðu er mikilvægt að halda sig við staðreyndirnar og segja ekki meira en hægt er að standa við.

Fulltrúar minnihlutans/Sjálfstæðisflokksins og ákafir fylgismenn þeirra sett fram stórar fullyrðingar um slæman fjárhag Árborgar. Þá hefur því verið haldið á lofti að skuldahlutfall sveitarfélagsins (skuldir á móti heildarárstekjum sveitarfélagsins) hafi lækkað verulega á þeim 8 árum sem hann var við völd (2010 til 2018) og ekki annað skilja en það bæri að þakka frábærri fjármálastjórn.

Ég ákvað að kanna málið frekar og aflaði mér upplýsinga á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem er aðgangur að hvers konar tölfræðilegum upplýsingum um sveitarfélögin. Hægt er að skoða annars vegar tölur um rekstur A hlutans þ.e. bæjarsjóðs og einnig A og B hlutans saman en í B hlutanum eru fyrirtæki á vegum sveitarfélagsins s.s. Selfossveitna.

Skuldahlutfall

A hluti

Ég tók nokkur sveitarfélög til samanburðar, öll á suðvesturhorninu og í svipuðum stærðarflokki fyrir utan Hafnarfjörð sem er töluvert fjölmennari. Árið 2010 eru öll sveitarfélögin illa stödd eftir hrunið nema Akranes. Árborg er á þessum árum í miðju þessara sveitarfélaga og skuldahlutfallið 205%. Skuldir lækka næstu árin hjá þeim öllum og fór skuldahlutfallið hjá Árborg lægst á árinu 2019 í 129% á fyrsta heila ári núverandi meirihluta. Lægst fór hlutfallið hjá meirihluta Sjálfstæðisflokksins árið 2017 í 132. Árið 2020 hækkar skuldahlutfallið hjá þeim öllum nema Akraneskaupstað og er 147% hjá Árborg. Skýringin er augljós þ.e. Covid en þá var skuldaviðmiðunarhlutfallið hækkað í 200% til ársins 2025 og sveitarfélögin hvött af ríkisstjórninni til að auka framkvæmdir til að sporna gegn óæskilegum áhrifum faraldursins. Óhætt er að fullyrða að vel hafi tekist til í þeim efnum í Árborg, blússandi atvinnulíf og næg atvinna. Í árslok 2020 er Árborg á svipuðu róli og þessi samanburðarsveitarfélög. Ég hef ekki tölur úr ársreikningum þessara sveitarfélaga fyrir árið 2021 en reikna með að skuldir þeirra flestra hfaf hækkað á milli ára, en tel ólíklegt að einhver sérstök straumhvörf hafi orðið í rekstri þeirra.

A+B hlutar S

Ef við skoðum skuldahlutfall bæjarsjóða og fyrirtækja viðkomandi sveitarfélaga kemur svipuð mynd í ljós. Skuldahlutfall Árborgar er þannig 157% árið 2020 og liggur um miðbik samanburðarsveitarfélaganna. Hafa ber í huga að fyrirtækin sem um ræðir eru sjálfbær þannig að þau eru ekki kostuð af almennum skatttekjum.

Skuldir á íbúa m.v. A hluta ársreiknings
Skuldir á íbúa hækka hjá öllum sveitarfélögunum í samanburðinum á síðu nema Akraneskaupstað á síðustu árum. Í lok árs 2020 eru skuldir á íbúa í Árborg 1.448 þúsund. Þær eru hins vegar hæstar í Reykjanesbæ 2.433 þúsund og næst hæstar í Hafnarfirði 1.684 þúsund. Skuldir á íbúa ef A og B hlutar eru lagðir saman eru 1.557 þúsund. Fullyrðingar um að hér séu skuldir um þrjár milljónir króna á íbúa eru því algjörlega úr lausu lofti gripnar.

Niðurstaða
Niðurstaðan af þessum samanburði er sú að að skuldir Árborgar eru alveg á pari við önnur hliðstæð sveitarfélög. Hins vegar er augljóst að miklir vaxtarverkir fylgja þeirri gífurlegu fjölgun íbúa sem hefur orðið á þessu kjörtímabil og stefnir jafnvel í enn hraðari fóksfjölgun. Því fylgja óhjákvæmilega lántökur til að standa að nauðsynlegri innviðauppbyggingu. Henni munu fylgja auknar skuldir en þegar um hægist koma auknar tekjur vegna fjölgunar gjaldenda og húseigna sem skilar sér í auknum útsvarstekjum og fasteignasköttum. Þannig mun jafnvægi nást á fáum árum.

Þá verður einnig að hafa í huga að ríkisvaldið hefur þrengt verulega að fjárhag sveitarfélaganna með sífellt auknum kröfum og lagasetningu sem hefur aukið útgjöld sveitarfélaganna án þess að tekjur komi á móti. Ábyrgð á þessari þróun ber Sjálfstæðisflokkurinn undir stjórn Bjarna Benediktssonar og því afar ólíklegt að sjálfstæðismenn í Árborg geti nokkru hnikað í þeim efnum ef hann kemst til aukinna áhrifa. Eitt af meginverkefnum bæjarstjórnar Árborgar í samvinnu við önnur sveitarfélög verður að herja á ríkisvaldið til að knýja fram breytingar á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

P.s. Gleymum ekki bankasöluhneykslinu þegar við göngum að kjörborðinu á laugardaginn.

Þorvarður Hjaltason,
fyrrverandi framkvæmdastjóri Sambands sunnlenskra sveitarfélaga.

Fyrri greinNýja hjúkrunarheimilið heitir Móberg
Næsta greinÞegar samvinna býr til samfélagsleg verðmæti