Það er hægt að byggja réttlátt þjóðfélag á traustum efnahag. Og eins gott, því þetta verður viðfangsefni næstu ríkisstjórnar.
Henni ætla ég að leggja lið og til þess mælist ég eftir liðveislu þinni við að verða í þriðja sæti á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir næstu kosningar til Alþingis.
Hlutverk fyrstu ríkisstjórnarinnar eftir Hrun er að sinna rústabjörgun. Hlutverk næstu ríkisstjórnar er að byggja traust efnahagskerfi. Efnahagsmál eru undirstaða alls annars, á þeim hvíla velferðarmál, menntamál og atvinnumál. Góð hagstjórn er forsenda þess að nokkuð annað á óskalista okkar geti gengið eftir. Um þetta hef ég áður fjallað í grein á þessari síðu.
Vinstrimenn eru þekktari fyrir áhuga sinn á réttlætis- og velferðarmálum heldur en á efnahagsmálum. Á meðan hafa hægrimenn eignað sér efnahagsmál um of, talið sjálfum sér og öðrum trú um að af því þeim sé umhugað um gróða þá hafi þeir vit á því að græða fyrir þjóðarbúið allt. Þessa mynd af sér hafa þeir afsannað rækilega, að geta troðið í eigin vasa kunna þeir, en að gæta þjóðarhags kunna þeir ekki.
Hvað þarf næsta ríkisstjórn að gera í efnahagsmálum? Hún þarf að leggja stóru hornsteinana sem efnahagur landsins mun byggjast ofaná. Þar skiptir öllu máli úr hverju þeir eru gerðir og að þeim verði komið tryggilega fyrir.
Fyrir það fyrsta þarf að tryggja þjóðareign á auðlindum. Með yfirráðum yfir auðlindum höldum við alltaf þeim möguleika að geta bjargað okkur hvað sem á bjátar. Um allt annað getum við deilt.
Fyrir það næsta þarf að auka verðmætasköpun. Verðmæti verða til við framleiðslu, framleiðsla verður til við vinnu, vinna skapar arð. Bæði þarf að huga að aukinni verðmætasköpun í hefðbundnum atvinnugreinum og þar tel ég mikil sóknarfæri vera í íslenskum landbúnaði og svo þarf að greiða götu aukinnar nýsköpunar því ljóst er að þar liggja stærstu sóknarfærin.
Fyrir það þriðja þarf að bæta samkeppnishæfni og aðgengi íslenskrar framleiðslu að mörkuðum erlendis. Svo fámenn þjóð sem Íslendingar mun byggja nútíma og framtíðar lífshætti sína á innflutningi og útflutningi, en ekki á innanlandsmarkaði eingöngu.
Fyrir það fjórða þarf að koma á gagnlegu fjármálakerfi. Við þurfum innlendan gjaldmiðil sem tekur mið af innlendum aðstæðum og þjónar innanlandsmarkaði, heimilum og flestum atvinnufyrirtækjum. Þar tel ég nýja uppbyggingu sparisjóða geta komið að miklu gagni. Jafnframt þarf að tryggja fullt aðgengi að fjölþjóðlegum gjaldmiðli. Saman gefur þetta tvennt þann sveigjanleika í fjármálakerfinu sem auðveldar það að skapa þann stöðugleika sem öll fjárhagsplön fjölskyldna og fyrirtækja byggja á.
Erindi mitt inn á Alþingi Íslendinga verður að tryggja sterkan efnahag til að byggja réttlátt þjóðfélag á. Að gefa þér tækifæri til að vinna fyrir þér og þínum án þess að verða skuldaþræll.
Um þessi mál og fleiri má lesa á vefsíðu minni.
Soffía Sigurðardóttir,
gefur kost á sér í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi