Um þessar mundir eru tíu ár síðan að Fræðslunetið bauð í fyrsta sinn upp á nám fyrir félagsliða. Í þessum fyrsta hópi skráðu sig 12 þátttakendur. Námið var skipulagt til tveggja ára og kennt var tvisvar í viku. Eftir þetta fyrsta ár var komin góð reynsla á námsfyrirkomulagið og því fór Fræðslunetið af stað með sambærilegt nám fyrir starfsfólk leikskóla og haustið 2013 var í fyrsta sinn boðið upp á Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú. Síðan þá hafa báðar þessar námsbrautar verið vel sóttar og í heildina hafa 149 einstaklingar útskrifast úr náminu.
Námið er skipulagt í dreifnámi og í vendikennslu en það felur í sér að námsmenn hafa aðgang að fyrirlestrum sem þeir hlusta á þegar þeim hentar. Einu sinni í viku hittast þeir ásamt leiðbeinenda og ræða efni fyrirlestursins og vinna ýmis verkefni bæði einstaklingslega en líka í hópi. Þátttakendur koma víða að enda nær starfssvæði Fræðslunetsins frá Þorlákshöfn í vestri til Hafnar í Hornafirði í austri. Eins hefur það færst í vöxt að þátttakendur séu frá öðrum landssvæðum.
Umræðu- og verkefnatímarnir eru sendir út í gegnum samskiptaforritið Teams þannig að þátttakendur eru ýmis í starfsstöð Fræðslunetsins á Selfossi – Fjölheimum eða heima hjá sér. Á hverri önn eru kenndir þrír – fjórir áfangar og eingöngu einn áfangi í einu en það fyrirkomulag hefur hentað mjög vel. Námið nær yfir tvö ár á Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrúnni en yfir þrjú ár á Félagsliðabrúnni. Fyrstu tvö árin er hægt að taka hjá Fræðslunetinu en seinni hlutann eingöngu í framhaldsskóla til þess að útskrifast sem félagsliði.
Í vetur eru 19 þátttakendur skráðir á Félagsliðabrú og 29 þátttakendur á Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú. Þess má geta að stór hluti af þessum þátttakendum tók þátt í raunfærnimati fyrir þessar námsbrautir í vor og fengu þó nokkuð af áföngunum í náminu metna. Frekari upplýsingar um brúarnámið og raunfærnimat er hægt að nálgast hjá náms- og starfsráðgjöfum Fræðslunetsins þeim Eydísi Kötlu, Söndru og Sólveigu.
Eydís Katla Guðmundsdóttir,
náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri með brúarnámi