Stjórn LFS: Staða lögreglunnar á Suðurlandi

Stjórn Lögreglufélags Suðurlands kom saman á fundi þann 19. september sl. til þess að ræða grafalvarlegt og síversnandi ástand löggæslumála á Suðurlandi sem orsakast af áralöngu fjársvelti.

Er nú svo komið að íbúum og lögreglumönnum er hætta búin vegna fækkunar lögreglumanna við embættin auk þess að öryggis- og varnarbúnaður lögreglumanna hefur ekki fylgt þeirri þróun sem á sér stað í vopnaburði í undirheimum Íslands. Þá er samdráttar- og niðurskurðarkrafa innan lögreglu orðin svo að lögreglumenn geta vart sinnt eiðsvörnu og lögbundnu hlutverki sínu.

Nú er staðan sú við embætti lögreglustjórans á Selfossi að lögreglumönnum hefur fækkað úr 28 árið 2007 niður í 20 . Voru þá starfandi á vakt 5 lögreglumenn virka daga en 7 lögreglumenn um helgar. Nú eru starfandi 3 til 4 lögreglumenn á vakt í miðri viku og 5 um helgar. Við embætti lögreglustjórans á Hvolsvelli voru, árið 2007, starfandi 9 lögreglumenn en telja nú 7 starfandi lögreglumenn. Eru þá jafnan 2 lögreglumenn staðsettir á Hvolsvelli og 1 á Kirkjubæjarklaustri. Vegna fjárskorts hefur ekki verið ráðið í stöðu lögreglumanns í Vík í Mýrdal né stöðu lögreglumanns sem er frá vegna veikinda. Geta má þess að sólarhrings vakt er við embætti lögreglustjórans á Selfossi allan ársins hring. Við embætti lögreglustjórans á Hvolsvelli eru almennt bakvaktir að næturlagi utan helga.

Er þessi þróun umhugsunarverð í ljósi þess að íbúum með fasta búsetu innan lögregluumdæmanna hefur fjölgað talsvert frá ári til árs, og eru þá ótaldir þeir sem hafa hér dvalarstað eða aðsetur talsverðan hluta ársins í u.þ.b. 7.500 sumarhúsum sem finnast á Suðurlandi. Er nú svo komið að dvöl í sumarhúsum er óháð árstíma.

Suðurland býr yfir nokkrum fegurstu náttúruperlum Íslands og hefur umferð ferðamanna, innlendra sem erlendra, stóraukist síðari ár og verður seint hægt að tilgreina þann fjölda ferðamanna sem um Suðurland fara. Þó telja ýmsir innan ferðaþjónustugeirans að allt að 70-80% allra erlendra ferðamanna á Íslandi ( 72% samkvæmt könnun Ferðamálastofu árið 2011) hafi viðdvöl á Suðurlandi til lengri eða skemmri tíma, allan ársins hring. Samkvæmt heimasíðu Ferðamálastofu (http://www.ferdamalastofa.is/Category.mvc/Display/503) var árið 2011 heildarfjöldi erlendra gesta 565.611 manns. Ef við reiknum með að 70 % þeirra hafi lagt leið sína um Suðurland þá gera það um 400 þúsund manns.

Í umdæmum lögreglunnar á Selfossi og Hvolsvelli eru auk þessa tvö af stærstu fangelsum landsins sem og meðferðar- og dvalarheimili fyrir unglinga og unga afbrotamenn.

Þá má að lokum tilgreina að Suðurland er eitt mesta náttúruhamfarasvæði Íslands og hafa íbúar þess sem og Evrópa öll verið rækilega áminntir hin síðari ár um þá náttúruvá sem hér er til staðar.

Undanfarin ár hefur fjársvelti og misskipting fjármagns til lögreglu komið illa niður á embættum lögreglustjóranna á Selfossi og Hvolsvelli og er löggæsla þessara embætta nú í lágmarki. Dregið hefur verið saman í akstri lögreglubifreiða svo skiptir tugum þúsunda kílómetra á ársgrundvelli. Minnkandi akstur þýðir að sýnileiki lögreglu minnkar sem og eftirlit og löggæsla. Fækkun lögreglumanna hefur sömu áhrif auk þess að þjónusta við almenna borgara verður lakari og sóknarfæri skapast fyrir þá sem eru síður heiðvirðir.

Nú er svo komið að lögreglumenn eru meðal annars hættir að geta sinnt sem skyldi tilkynningum vegna samkvæmishávaða, um ónæði og grunsamlegra mannaferða. Þá eru lögreglumenn hættir að geta sinnt forvarnarvinnu, þjónustuútköllum við íbúa s.s. vegna lausagöngu dýra, aðstoð við að komast inn í læstar bifreiðar og hús og annarra verkefna af þeim toga.

Það má ekki skilja sem svo að lögreglumenn vilji ekki sinna þessum málum eða þjónusta almenning, heldur útheimta þessi verkefni mannskap og akstur lögreglubifreiða sem kosta fjármuni sem Alþingi hefur ekki séð ástæðu til að nota í þágu öryggis og þjónustu fyrir íbúa landsins.

Það er dapurlegur raunveruleiki lögreglumanns að þurfa að velja milli tveggja, jafnvel þriggja, slysa eftir því hvert þeirra hljómar alvarlegast og geta ekki sinnt hinum. Nú er sorfið inn að beini og teikn á lofti að hæfir lögreglumenn verði nauðbeygðir til að yfirgefa lögreglustarfið vegna sífelldrar niðurskurðar- og hagræðingarkröfu sem og versnandi starfsskilyrða og stóraukins álags á þá og fjölskyldur þeirra.

Einkar áhugavert er að líta yfir fjárlög komandi árs og bera saman fjárveitingar lögregluembættanna miðað við fjölda íbúa með skráð lögheimili innan hvers lögregluumdæmis eins og sá íbúafjöldi birtist þann 1. janúar 2012 s.kv. Hagstofu Íslands. Sá samanburður er sláandi og misræmið talsvert.

Lögreglustjórinn á Selfossi fær til ráðstöfunar 262,9 milljónir króna. Sé þeirri upphæð deilt niður á þá 15.198 íbúa umdæmisins verður krónutalan 17.298 krónur á hvern íbúa. Við embætti lögreglustjórans á Hvolsvelli er krónuleg staða eilítið skárri eða 27.717 krónur á hvern íbúa. Þó þarf að taka með í þann reikning að umdæmið er víðfeðmt og strjálbýlt. Við þessar fjárveitingar er ekki gert ráð fyrir þeim fjölda fólks sem hér dvelur reglulega í sumarhúsum sínum árið um kring né stóraukins fjölda erlendra ferðamanna.

Sé horft til umdæmis lögreglustjórans á Suðurnesjum er krónutalan 49.208 krónur á hvern íbúa (fjárlög gera ráð fyrir 1.047 milljónum sem deilast niður á 21.277 íbúa). Í því samhengi þarf þess réttilega að geta að miðstöð millilandaflugs er á Suðurnesjum og mikill fjöldi ferðamanna fer um umdæmið ár hvert á leið sinni til annarra lögregluumdæma. Sú fjárhæð sem liggur að baki hverjum íbúa á Suðurnesjum er nærri því sem eðlilegt mætti teljast fyrir löggæslu á landsvísu.

Lögreglufélag Suðurlands lýsir yfir fullum stuðningi við yfirstjórnir embætta lögreglustjóranna á Selfossi og Hvolsvelli sem rekið hafa embættin þrátt fyrir minnkandi fjárveitingar og stöðugrar kröfu um hagræðingu og niðurskurð. Lögreglufélag Suðurlands kallar þingmenn Suðurlands og fjárveitingarvaldið til ábyrgðar á ofangreindum raunveruleika og varpar þeirri spurningu fram, hvort þingmenn telji að núverandi ástand sé ásættanlegt öryggis-, þjónustu- og löggæslustig fyrir Suðurland. Auk þess að kallar Lögreglufélag Suðurlands eftir tillögum til úrlausna og bóta frá Alþingi og þingmönnum suðurkjördæmis.

Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða.

F.h. stjórnar Lögreglufélags Suðurlands
Adolf Árnason, formaður
Heiðar Bragi Hannesson, varaformaður
Hermundur Guðsteinsson, ritari
Ívar Bjarki Magnússon, gjaldkeri
Magnús Ragnarsson, stjórnarmaður

Lögreglufélag Suðurlands var stofnað 1968 upphaflega sem stéttarfélag lögreglumanna á Suðurlandi en telst nú sem deild innan Landssambands lögreglumanna, núverandi stéttarfélags lögreglumanna. Lögreglufélag Suðurlands þjónar hagsmunum lögreglumanna sem starfa við embætti lögreglustjórans á Hvolsvelli og embætti lögreglustjórans á Selfossi.

Fyrri greinBirgir vill 2. sætið og Eygló fer í Kragann
Næsta greinÁfram friðun á suðvesturhorninu